Spurning

Af hverju var númerið 112 valið sem neyðarnúmer?

Spyrjandi

Hannes Jón Marteinsson

Svar

Spurningin í fullri lengd hljóðaði svona:
Er einhver sérstök ástæða fyrir því að talnarunan einn-einn-tveir (1-1-2) er valin sem neyðarnúmer? Hvers vegna ekki 1-2-3 eða 1-1-1?

Fyrst var mælt með númerinu 112 sem samræmdu neyðarnúmeri af Samtökum póst- og fjarskiptastjórna í Evrópu árið 1972. Númerið var síðan gert að samevrópsku neyðarnúmeri í aðildarlöndum Evrópusambandsins með ákvörðun ráðs sambandsins árið 1991. EES-samningurinn, sem samið var um um svipað leyti, fól í sér skuldbindingu fyrir Ísland og önnur EFTA/EES-ríki til að taka 112 upp sem neyðarnúmer til samræmis við aðildarríki ESB (2. liður 10. gr. bókunar 31). Á Íslandi var það gert með lögum um samræmda neyðarsímsvörun árið 1995.


Á símum með snúningsskífu var fljótlegra að hringja í símanúmer með lágum tölum heldur en háum.

Það eru nokkrar ástæður fyrir því að númerið 112 var valið sem neyðarnúmer.

Í fyrsta lagi er lengd símanúmersins aðeins þrjár tölur, ekki er hentugt að hafa neyðarnúmer of langt eða of flókið.

Í öðru lagi er æskilegt að tölurnar þrjár séu ekki allar þær sömu. Meiri hætta er á því að óvart séu valdar þrjár eins tölur heldur en þrjár tölur þar sem ein er öðruvísi, til dæmis ef ung börn komast í síma. Tölurnar 1-1-2 eru þess vegna hentugri en til dæmis 1-1-1.

Í þriðja lagi var númerið valið með hliðsjón af símum með snúningsskífu. Á þannig símum þurfti að snúa skífunni styttra til að velja lág númer, heldur en há númer. Mun fljótlegra var að hringja í númerið 112 heldur en til dæmis 999 á þess háttar símum.

Þetta eru helstu ástæðurnar fyrir því að neyðarnúmerið 112 er algengt víða um heim, en samkvæmt Wikipediu er það notað í 81 landi.

Heimildir:

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.11.2014

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson og Þórhildur Hagalín. „Af hverju var númerið 112 valið sem neyðarnúmer?“. Evrópuvefurinn 27.11.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=15237. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundar

Jón Gunnar Þorsteinssonbókmenntafræðingur og ritstjóri VísindavefsinsÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela