Spurning

Þjóðabandalagið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Þjóðabandalagið (e. the League of Nations, LN), forveri Sameinuðu þjóðanna, var stofnað árið 1919 á grundvelli Versalasamningsins sem batt enda á fyrri heimsstyrjöldina. Því var formlega komið á fót 10. janúar 1920 og hafði það aðsetur í Genf í Sviss. Þjóðabandalagið var fyrsta alþjóðastofnunin sem hafði það markmið að viðhalda friði í heiminum.

Alls voru 42 ríki stofnfélagar Þjóðabandalagsins og 63 ríki urðu einhvern tíma meðlimir þess. Það er hátt hlutfall miðað við þáverandi ríkjafjölda í heiminum. Bandaríkin, eitt stórveldanna, gerðust þó aldrei aðilar að bandalaginu.

Meginmarkmið stofnunarinnar voru að koma í veg fyrir vopnuð átök og vera vettvangur samningaviðræðna til að leysa úr milliríkjadeilum. Meðlimir Þjóðabandalagsins samþykktu að virða landamæri og stjórnmálalegt sjálfstæði annarra ríkja og sérhvert stríð eða hótun um árás var málefni allra bandalagsríkja og þeim skylt að bregðast við.

Þjóðabandalagið samanstóð af þingi, ráði og skrifstofu. Auk þess störfuðu á vegum þess Alþjóðadómstóllinn og Alþjóðavinnumálastofnunin sem heyra nú undir Sameinuðu þjóðirnar. Opinber tungumál Þjóðabandalagsins voru enska, franska og spænska.

Upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar markaði endalok Þjóðabandalagsins sem náði ekki að bregðast við þegar meðlimir þess rufu ákvæði stofnsáttmálans og stríðsátök brutust út víða í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945 og tóku við starfsemi Þjóðabandalagsins sem var endanlega lagt niður árið 1946.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela