Spurning
Hvað hefur vísindamaðurinn Hrönn Ólína Jörundsdóttir rannsakað?
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Hrönn Ólína Jörundsdóttir er sviðsstjóri Mæliþjónustu og rannsóknarinnviða hjá Matís. Hún er með doktorsgráðu frá Stokkhólmsháskóla í umhverfisefnafræði og hefur sérhæft sig í rannsóknum á mengun í umhverfi og mat. Hún hefur stundað fjölbreyttar rannsóknir á mismunandi mengun, meðal annars á málmum og þungmálmum í íslensku umhverfi og matvælum, heildarútsetningu Íslendinga fyrir þungmálmum, áhrifum skipasiglinga á viðkvæmum norðurslóðum og magn plastagna sem sleppa út í hafið kringum landið. Í umhverfinu er margskonar mengun sem verður að taka tillit til þegar kemur að matvælaöryggi, það er ekki hægt að framleiða gæðamatvæli með hráefnum sem vaxa í menguðu umhverfi. Mengun getur verið annað hvort langvarandi (þrávirk) eða skammvinn og áhrif hennar mismunandi eftir því. En þótt mengun sé til staðar getur verið óvíst hver áhrifin eru á lífríki og menn. Þetta sameinast allt í þverfaglegum rannsóknum á umhverfisáhrifum og matvælaöryggi. Við búum í dag við þann raunveruleika að geta fundið mengun alls staðar, í náttúrunni, í matvælum, á heimilum og í okkur sjálfum - hvert mannsbarn fæðist í dag með ákveðinn skammt mengunar í sér. En spurningin er alltaf hvaða áhrif þessi mengun hefur á okkur. neytendur geti verið öruggir um að matvælin sem þeir neyta ógni ekki heilsu þeirra. Áhættumat byggir á því að þekkja mögulegan styrk óæskilegra efna í matvælum, vita meðalneyslu landsmanna á matvælum og þekkja áhrif óæskilegu efnanna á menn. Þessi þrjú atriði eru sett saman til að reikna út áhættu af neyslu matvælanna. Þar sem ómögulegt er að finna matvæli sem ekki innihalda mengun af einhverju tagi er tilgangur áhættumatsins ekki að útiloka áhættu heldur að meta hver er ásættanleg áhætta með tilliti til lífslangrar neyslu matvælanna, það er hverjar líkurnar eru á alvarlegum sjúkdómum ef matvælanna er neytt allt lífið. Hrönn er fædd árið 1978. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 1998 og BS-prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands árið 2001. Sama haust fluttist hún til Svíþjóðar og hóf nám við Stokkhólmsháskóla þaðan sem hún lauk MS-prófi í umhverfisefnafræði árið 2002. Hrönn hélt áfram rannsóknum á umhverfisefnafræði við skólann með áherslu á samanburð mengunar á Norðurlöndunum. Í náminu skoðaði hún aðallega þrávirk lífræn efni eins og PCB, DDT, perflúoreruð efni og brómeruð brunavarnarefni ásamt niðurbrotsefnum þeirra í norrænu lífríki. Hún lauk Ph.D. gráðu frá Stokkhólmsháskóla árið 2009 undir handleiðslu prófessors Åke Bergman. Hrönn hóf störf hjá Matís 2009 sem verkefnastjóri og tók þá við mælingum á snefilefnum. Í dag er hún sviðsstjóri og er aðallega að vinna að matvælaöryggi, áhættumati og áhættumiðlun. Mynd:- Úr safni HÓJ.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur24.8.2018
Flokkun:
Efnisorð
Hrönn Ólína Jörundsdóttir umhverfisefnafræði mengun matvæli málmar þungmálmar matvælaöryggi áhættumat
Tilvísun
Ritstjórn Vísindavefsins og Vísindafélag Íslands. „Hvað hefur vísindamaðurinn Hrönn Ólína Jörundsdóttir rannsakað?“. Evrópuvefurinn 24.8.2018. http://evropuvefur.is/svar.php?id=76220. (Skoðað 6.10.2024).
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela