Spurning

Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum - Skýrsla Seðlabanka Íslands

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Út er komin skýrsla Seðlabanka Íslands Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Unnið hefur verið að henni í tvö ár og er hún rúmar 600 síður að lengd.

Í meginhluta ritsins er fjallað um kosti og galla þess að eiga aðild að stærra myntsvæði og gerð grein fyrir þeim þáttum sem hafa þarf í huga þegar tekin er ákvörðun um fyrirkomulag gjaldeyrismála á Íslandi til framtíðar. Áhersla er lögð á að skoða kosti og galla þess að leggja af krónuna og taka upp evru með aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu en einnig er horft til annarra myntsvæða, upptöku annars gjaldmiðils auk annars konar gengistenginga. Í ritinu er reynsla Íslendinga af núverandi fyrirkomulagi peninga- og gengismála borin saman við reynslu evruríkja eftir aðild, í aðdraganda fjármálakreppunnar og í kjölfar hennar. Að síðustu er fjallað um stofnanauppbyggingu evrusvæðisins og þá stofnanaþætti sem þyrfti að breyta hér með aðild Íslands að myntbandalaginu.

Ekki er kveðið upp úr með það í skýrslunni hvert framtíðarskipulag gjaldmiðilsmála á Íslandi eigi að vera og kemur raunar fram að ekkert einhlítt svar sé til við þeirri spurningu hvaða gjaldmiðil sé best að festa gengi krónunnar við eða taka upp. Tenging við eða upptaka evru sé þó augljósasti kosturinn, ef á annað borð er ákveðið að tengja gengi krónunnar öðrum gjaldmiðli eða að taka hann upp.

Skýrslan inniheldur umfangsmestu greiningu á möguleikum Íslands í gjaldmiðilsmálum sem gerð hefur verið og því ljóst að um er að ræða grundvallarrit. Nánar verður fjallað um efni hennar á Evrópuvefnum á næstunni.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur18.9.2012

Flokkun:

Fréttir

Efnisorð

Tilvísun

Ritstjórn Evrópuvefsins. „Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum - Skýrsla Seðlabanka Íslands“. Evrópuvefurinn 18.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=70917. (Skoðað 26.4.2024).

Við þetta svar er engin athugasemd Fela