Spurning

Hver verður framtíð ESB? [Umræðutexti B]

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Það er einkum tvennt sem þarf að hafa í huga þegar menn velta fyrir sér framtíð Evrópusambandsins. Í fyrsta lagi þarf að leita aftur til þeirra hugmynda sem leiddu til samstarfsins og þess jarðvegs sem það spratt upp úr. Í öðru lagi má líta á samstarf Evrópuríkja á vettvangi Evrópusambandsins sem viðbragð við eða hluta af alþjóðavæðingu efnahagslífsins sem átt hefur sér stað frá lokum seinna stríðs.

Frá upphafi var Evrópusambandið grundvallað á þeirri hugsjón að tryggja varanlegan frið og framfarir í álfunni. Eftir lok síðari heimsstyrjaldar hófust þreifingar í þá átt að koma á fót varanlegu efnahagssamstarfi landanna sem leið út úr vítahring styrjalda sem höfðu leitt ómældar hörmungar yfir íbúa Evrópu. Ríkin sex sem mynduðu samstarfið urðu sammála um að koma á fót sameiginlegum stofnunum til að taka sameiginlegar ákvarðanir um sameiginleg viðfangsefni. Allt frá stofnun sambandsins hefur samstarfið verið í sífelldri þróun og mótun og tekið til nýrra viðfangsefna og ríkja. Meðal aðildarríkjanna hafa alla tíð verið skiptar skoðanir um hvernig samstarfinu skuli háttað, hvaða viðfangsefni eigi að leysa á vettvangi sambandsins og með hvaða hætti eigi að leiða mál þar til lykta.


"Fjölskyldumynd" af leiðtogum aðildarríkja ESB tekin á fundi leiðtogaráðsins í Brussel 23. til 24. júní 2011.

Alþjóðavæðing efnahagslífsins er sennilega það afl sem hefur haft mest áhrif á Evrópusamrunann. Hún hefur leitt af sér aukin viðskiptatengsl og samskipti milli ríkja, sem endurspeglast í flæði fjármagns, fjárfestinga og viðskipta þvert á landamæri. Ríki verða í sí auknum mæli fyrir áhrifum sem eiga rætur fyrir utan landamæri þeirra og þau hafa litla stjórn á. Ein síns liðs hafa þau ekki burði til að takast á við margþætt viðfangsefni samtímans. Nýjar ógnir eins og loftslagsbreytingar, farsóttir, mansal og hryðjuverkastarfsemi þekkja engin landamæri og eina leið ríkisstjórna til að vinna á þeim er alþjóðleg samvinna. Með inngöngu í Evrópusambandið afsala ríkin sér hluta af fullveldi sínu til yfirþjóðlegra stofnana sambandsins en á móti fá þau meðal annars aukna hlutdeild og vægi á alþjóðavettvangi.

Evrópusambandið þarf að fást við margskonar áskoranir í nánustu framtíð. Frá áttunda áratugnum hefur Evrópusambandið verið í stöðugu stækkunarferli. Stækkun þess í austur og suður vekur upp áleitnar spurningar um hvert eigi að stefna. Tyrkland sótti um aðild á sjöunda áratugnum en það var ekki fyrr en árið 1993 sem landið fékk formlega viðurkenningu umsóknarríkis - ásamt flestum ríkjum Austur-Evrópu. Eiginlegar samningaviðræður við Tyrkland hófust þó ekki fyrr en árið 2005, ári eftir stóru stækkunina til austurs. Sum aðildarríki óttast pólitísk og efnahagsleg áhrif þess á stjórnkerfi sambandsins að taka á móti svo fjölmennu og fátæku múslimaríki, sem auk þess er menningarlega og félagslega frábrugðið hinum aðildarríkjunum. Evrópusambandið þarf að vera sveigjanlegt og koma til móts við þarfir nýrra aðildarríkja, en á sama tíma og fjölbreytileiki þess eykst þá er það undir þrýstingi að vinna nánar saman. Leiðtogakreppa hefur einnkennt sambandið, sérstaklega þegar upp koma erfiðleikar og sameiginlegir hagsmunir ríkjanna eru í húfi. Það á eftir að koma í ljós hvort ný embætti utanríkismálastjóra og forseta leiðtogaráðs Evópusambandsins, sem urðu til með Lissabon-sáttmálanum, munu bæta úr þessum vanda.

Alþjóðlega fjármálakreppan sem skall á heimsbyggðinni árið 2007 hefur komið illa niður á skuldugustu ríkjum Evrópu og leitt af sér eina mestu kreppu sem sambandið hefur staðið frammi fyrir. Þegar Efnahags- og myntbandalagið varð að veruleika um síðustu aldamót voru margir sem bentu á að þrátt fyrir að myntbandalagið væri í höfn með upptöku evrunnar vantaði mikið upp á að stofnað hefði verið raunverulegt efnahagsbandalag. Gagnrýnin beindist meðal annars að því að ekki væru til neinir sameiginlegir sjóðir til að aðstoða aðildarríki sem lentu í efnahagsvanda og engin sameiginleg efnahags- og ríkisfjármálastefna. Reglurnar sem áttu að tryggja að aðildarríkin héldu sig innan ramma Maastricht-sáttmálans um fjárlagahalla og skuldasöfnun voru sömuleiðis veikburða, þar sem evruríkin komust upp með að uppfylla ekki skilyrðin og engin viðurlög voru við því að brjóta þau. Þessi veikleiki kom bersýnilega í ljós í kjölfar ríkisfjármálakreppunnar.


Evrópusamstarfinu hefur stundum verið líkt við lest.

Leiðtogar aðildarríkjanna standa núna frammi fyrir því að taka á þeim kerfisvanda sem upp er kominn í evrusamstarfinu með því að dýpka samstarfið. Það verður þó ekki gert án mikillar pólitískrar umræðu og andstöðu í sumum ríkjanna. Evrópusambandið hefur í gegnum tíðina tekist á við margskonar erfiðleika. Það var beinlínis stofnað til þess að takast á við krísur og þegar litið er yfir sögu sambandsins kemur í ljós að því hefur hingað til tekist að yfirstíga þá erfiðleika sem orðið hafa á vegi þess. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna þurfa að setja reglur um það hvernig á að skipta því tjóni sem hlaust af fjármálakreppunni á milli aðildarríkja. Jafnframt þarf að efla eftirlit með ríkisfjármálum og bankastarfsemi en unnið er að því að setja á laggirnar björgunarsjóði sem aðstoða þau evruríki sem lenda í skuldavanda.

Evrópusamstarfinu hefur verið líkt við lest sem ýmist geysist áfram eða mjakast löturhægt. En ólíkt því sem gildir um aðrar lestarferðir á Evrópulestin sér enga þekkta endastöð. Þegar öllu er á botninn hvolft er Evrópusambandið umfram allt vettvangur fyrir kerfisbundið og samfellt samstarf Evrópuríkja. Verkefni þess mótast af þeim áskorunum sem aðildarríkin standa frammi fyrir hverju sinni og það er í höndum aðildarríkjanna sjálfra að ákveða hvert þau vilja stefna.

Hér má lesa svar Björns Bjarnasonar við sömu spurningu.

Heimildir og myndir:
  • Eiríkur Bergmann Einarsson, 2009: Frá Evróvisjón til Evru. Reykjavík: Veröld.
  • Neill Nugent, 2006: The Government and Politics of the European Union, 6th Ed. New York: Palgrave Macmillan.
  • John McCormick, 2008: Understanding the European Union: A Concise Introduction, 4th Ed. Basingstoke: Palgrave Macmillan
  • Desmond Dinan, 2010: Ever Closer Union: an Introduction to European Integration. Basingstoke: Palgrave Macmillan.
  • Fyrri mynd sótt á heimasíðu leiðtogaráðsins, 14.10.2011.
  • Seinni mynd sótt á en.wikipedia.org - rail transport, 14.10.2011.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.10.2011

Flokkun:

Málstofa

Efnisorð

Tilvísun

Elvar Örn Arason. „Hver verður framtíð ESB? [Umræðutexti B]“. Evrópuvefurinn 14.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=70894. (Skoðað 18.9.2024).

Höfundur

Elvar Örn ArasonMA í alþjóðasamskiptum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela