Spurning

Hver verður framtíð ESB? [Umræðutexti A]

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í ágúst 2011 eru blikur á lofti varðandi framtíð Evrópusambandsins. Undanfarnir mánuðir hafa verið sambandinu mjög erfiðir. Tveir samstarfsþættir sem vega þungt við mat á framtíðinni eru í uppnámi: myntsamstarfið um evruna annars vegar og frjáls för um Evrópu og þá einkum Schengensamstarfið hins vegar.

Sé tekið mið af orðum einlægra málsvara Evrópuverkefnisins – the European project – samrunaþróunarinnar í Evrópu undir merkjum Evrópusambandsins, telja þeir að vandinn vegna evrunnar og vaxandi krafa innan einstakra ríkja um aukna gæslu á landamærum sé í senn ógn og tækifæri fyrir verkefni sitt. Sagan sýni að nota megi vanda og kreppu til að stíga enn eitt skrefið frá ríkjasambandi til sambandsríkis Evrópu.


Schengen-samkomulagið var undirritað í nágrenni bæjarins Schengen í Lúxemborg árið 1985.

Á borðinu liggja tillögur um frekari samruna á evru-svæðinu. Á það er bent með sterkum rökum að ekki sé unnt að halda úti einni mynt nema jafnframt sé fylgt sameiginlegri peninga- og fjármálastefnu á myntsvæðinu. Efnahagsstjórn yfir evrunni verði að samhæfa á einum stað og fráleitt sé að 17 þjóðþing samþykki hvert um sig sín fjárlög án tillits til þess sem stjórnendur peningamála segja. Þeir sem lengst ganga vilja einn evru-fjármálaráðherra.

Annaðhvort verður samruninn meiri og yfirþjóðlega valdið í þágu evrunnar meira eða horfið verður frá hinni sameiginlegu mynt.

Aðildarríki ESB eru 27 og að því er unnið að 28. ríkið, Króatía, bætist í hópinn 2013. Fleiri ríki á Balkanskaga hafa sótt um aðild. Fjölgi þessum ríkjum innan ESB og verði stigin frekari skref til móts við óskir Tyrkja um aðild, hækka raddir þeirra sem segja fráleitt að landamæri séu jafnopin og raun ber vitni um innan Schengen-svæðisins. Skilin milli þeirra ríkja sem treysta hvert öðru í baráttu við ólögmæta starfsemi og hinna sem þessi ríki vantreysta munu skerpast.

Aðildarríki Evrópusambandsins eru orðin of mörg og ólík til þess að unnt sé að láta sömu reglur gilda um þau í efnahagsmálum og innri öryggismálum. Við blasir að talsmenn Evrópuverkefnisins hafa færst of mikið í fang með fjölgun aðildarríkja. Þeim tekst ekki að skapa samkennd ólíkra þjóða með fyrirmælum að ofan, hvorki frá framkvæmdavaldi Evrópusambandsins né dómstóli þess. Áhugi almennings á þingi Evrópusambandsins er lítill og minnkandi. Ríkin ná ekki saman og þjóðirnar vilja halda í þjóðríkið.

Innan Evrópusambandsins hefur orðið til þrepaskipt samstarf. Sum ríki eiga nánara samstarf sín á milli en önnur. Að nokkru leyti er þrepaskiptingin samningsbundin - ekki eru öll ríkin með evru, ekki eru öll ríkin í Schengen - að nokkru hafa ríki skipað sér saman af pólitískum eða landfræðilegum ástæðum.


Yfir 1400 tillögur bárust í hönnunarkeppni um nýtt merki fyrir breytta Evrópu. Til vinstri Europe - united in diversity eftir Emilia Palonen, Finnlandi. Til hægri Spectrum eftir Viktor Hertz, Svíþjóð.

Hið þrepaskipta samstarf innan Evrópusambandsins þróast áfram, sum ríki eiga nánara samstarf en önnur. Spurning er hvenær hafist verður handa við að laga stjórnkerfi ESB að þessari þróun. Framkvæmdastjórn ESB vill ekki að valdsvið sitt sé skert. Sömu sögu er að segja um þjóðþing einstakra aðildarríkja. Þar vex þeirri skoðun fylgi að yfirþjóðleg samrunaþróun undir merkjum Evrópuverkefnisins hafi náð hámarki.

Framtíð Evrópusambandsins ræðst af því að menn finni nýtt jafnvægi milli hins yfirþjóðlega valds og þjóðríkisins. Til Evrópuverkefnisins var stofnað til að skapa frið og jafnvægi í álfunni. Árangurinn er mikill og góður. Nú er hins vegar komið að þáttaskilum. Ólgan meðal margra Evrópuþjóða sýnir að yfirþjóðlegar kröfur um harkalegar efnahagsaðgerðir eða um framkvæmd öryggisgæslu á landamærum leiða til deilna innan aðildarríkjanna.

Spennan innan Evrópusambandsins og einstakra aðildarríkja þess vegna kröfunnar um aukna miðstýringu sýnir að enn er þörf á átaki til að fjalla um stjórnarhætti þess. Þegar framkvæmd Evrópuverkefnisins er tekin að vinna gegn markmiðum þess og stuðlar að upplausn og óvild í stað stöðugleika og vináttu milli þjóða verður ekki haldið lengra á sömu braut.

Framtíð Evrópusambandsins er í einu orði óljós. Hún á að ráðast af pólitískum vilja þjóðanna innan sambandsins. Hann hnígur á líðandi stundu gegn meiri miðstýringu og þar með gegn vilja þeirra sem vilja sambandsríki í stað ríkjasambands.

Hér má lesa svar Elvars Arnar Arasonar við sömu spurningu.

Myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur14.10.2011

Flokkun:

Málstofa

Efnisorð

Tilvísun

Björn Bjarnason. „Hver verður framtíð ESB? [Umræðutexti A]“. Evrópuvefurinn 14.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=70893. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Björn Bjarnasonfyrrverandi þingmaður og ráðherra

Við þetta svar er engin athugasemd Fela