Spurning

Hvað þýðir úrskurður þýska stjórnlagadómstólsins frá 7. september 2011 um aðstoð við skuldug evruríki? [Fréttaskýring]

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Hinn 7. september 2011 vísaði stjórnlagadómstóll Þýskalands frá kæru um að þátttaka þýska ríkisins í neyðaraðstoð til skuldugra evruríkja væri brot á stjórnarskrá sambandslýðveldisins. Dómurinn er sá þriðji í röð mikilvægra úrskurða dómstólsins um hvort þátttaka Þýskalands í Evrópusamrunanum stangist á við stjórnarskrá sambandslýðveldisins og hvernig eða hversu langt samrunaþróun Evrópu geti gengið án þess að brjóta gegn stjórnarskránni.Andreas Voßkuhle forseti stjórnlagadómstóls Þýskalands kveður upp dóm um neyðaraðstoð til ríkja á evrusvæðinu 7. september 2011.

Fyrstur þessara dóma var Maastricht-dómurinn svokallaði, frá árinu 1993, þar sem úrskurðað var um hvort staðfesting þýska sambandsþingsins á Maastricht-sáttmálanum fæli í sér brot á stjórnarskrá Þýskalands. Niðurstaða dómsins var að sú væri ekki raunin en þó aðeins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig lagði dómstóllinn áherslu á virkan meðákvörðunarrétt þjóðþinga og Evrópuþingsins, ella væri meginreglu stjórnarskrárinnar um lýðræði ógnað. Framsal á valdheimildum til ESB skyldi því áfram takmarkast við ákveðin svið og aðeins eiga sér stað með skýru umboði frá þýska löggjafanum. Dómstóllinn áskildi sér ennfremur rétt til þess að taka til skoðunar, í einstökum tilfellum, hvort lagagerðir ESB færu út fyrir þær valdheimildir sem aðildarríkin hafa falið stofnunum sambandsins.

Árið 2009 var staðfesting þýska sambandsþingsins á Lissabon-sáttmálanum kærð til stjórnlagadómstólsins. Dómstóllinn gerði athugasemd við viðaukalög um aðkomu þingsins að ákvörðunum um Evrópumál og ítrekaði ábyrgð sambandsþingsins á samrunaþróuninni. Þannig segir í Lissabon-dóminum, eins og hann er kallaður, að samruna Evrópu megi ekki framkvæma á þann hátt að ekki verði næg tækifæri innan aðildarríkjanna til að hafa áhrif á efnahags-, menningar-, og félagsleg lífsskilyrði. Þetta á einkum við um þau svið sem móta umhverfi borgaranna eins og fjárhagslegar grundvallarákvarðanir um tekjur og útgjöld ríkisins. Þess vegna væri það brot á meginreglunni um lýðræði og stjórnarskrárvarðan kosningarétt þýskra borgara, ef vald til ákvarðana um upphæð og tegund fjárhagslegra skuldbindinga ríkisins, sem hafa áhrif á borgara, yrði að stórum hluta framselt til yfirþjóðlegra stofnana.

Í dómi stjórnlagadómstólsins frá 7. september 2011 er þráðurinn tekinn upp frá Lissabon-dóminum. Í ljósi hans sé þýska sambandsþinginu óheimilt að framselja öðrum ábyrgð sína á fjárlögum með óskýru umboði. Einkum og sér í lagi má þingið aldrei, ekki heldur með lögum, verða hluti af fjármagnskerfum sem geta haft í för með sér óviðráðanlegar fjárhagslegar byrðar sem ekki voru fyrirfram samþykktar. Sérhver meiri háttar fjárhagsaðstoð sem þýska sambandslýðveldið veitir af samhug innan Evrópusambandsins eða á alþjóðavettvangi skal samþykkt af sambandsþinginu í smáatriðum.

Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að neyðaraðstoðin, sem þýska ríkið skuldbatt sig til að veita illa stöddum evruríkjum sumarið 2010, hafi uppfyllt þau skilyrði að vera nægilega afmörkuð og skýrt skilgreind og feli þar af leiðandi ekki í sér brot á stjórnarskránni. Þar með hefur þó ekki fengist óskorað umboð til þess að veita frekari neyðaraðstoð því dómurinn kveður á um að slíkar ákvarðanir megi ekki vera sjálfvirkar og skulu í framtíðinni háðar því skilyrði að fjárlaganefnd sambandsþingsins samþykki þær á öllum stigum máls.

Þessi niðurstaða er ekki líkleg til að koma frekari neyðaraðstoð við evruríki í sérstakt uppnám. Þannig virðast til dæmis engar óyfirstíganlegar hindranir í vegi áforma um innleiðingu evrópska fjármálastöðugleikakerfisins (European Stabilization Mechanism, ESM), sem ætlað er að stofna varanlega umgjörð til þess að tryggja stöðugleika evrusvæðisins í heild og bíður nú samþykkis aðildarríkja sambandsins. Á hinn bóginn er óhætt að ganga út frá því sem vísu að þýski stjórnlagadómstóllinn muni fá annað tækifæri til að kveða upp dóm áður en veruleiki getur orðið úr þeirri samræmingu í ríkisfjármálum aðildarríkjanna sem Angela Merkel og Nicolas Sarkozy hafa nýverið kallað eftir eða útgáfu sameiginlegra skuldabréfa evrusvæðisins (e. euro-bonds), sem einnig hefur verið í umræðunni.

Dómurinn er því áminning um að þátttaka Þýskalands, sem fullvalda ríkis, í frekari samrunaþróun Evrópu getur ekki átt sér stað án aðkomu og samþykkis þýska sambandsþingsins, sem er handhafi fullveldisins í lýðræðislegu umboði þýsku þjóðarinnar.

Mynd:

Mynd sótt þann 7.9.11. á sueddeutsche.de

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.9.2011

Flokkun:

Fréttir

Efnisorð

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvað þýðir úrskurður þýska stjórnlagadómstólsins frá 7. september 2011 um aðstoð við skuldug evruríki? [Fréttaskýring]“. Evrópuvefurinn 7.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=70890. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela