Spurning

Samvinna Evrópu og Miðjarðarhafslanda

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Samvinna Evrópu og Miðjarðarhafslanda (e. Union for the Mediterranean) er samstarfsvettvangur 43 ríkja; Evrópusambandsríkjanna 28 og 15 ríkja í Norður-Afríku, Miðausturlöndum og Balkanskaganum. Þessi ríki eru:

Albanía Máritanía
Alsír Mónakó
Bosnía og Hersegóvína Hernumdu svæðin í Palestínu
Egyptaland Svartfjallaland
Ísrael Sýrland
Jórdanía Túnis
Líbanon Tyrkland
Marokkó

Arababandalagið og Líbía hafa áheyrnaraðild og sitja fundi samvinnunnar. Sýrland hefur tímabundið slitið samvinnunni.

Samvinnunni var upphaflega komið á fót árið 1995 í kjölfar ráðstefnu sem haldin var í Barcelona á sama tíma og Spánn gegndi formennsku í ráðinu. Hún hefur einnig hlotið nafnið Barcelona-ferlið (e. Barcelona process). Frá árinu 2008 hefur samvinna ríkjanna verið óbreytt. Samstarfið fer fram innan regluverks evrópsku nágrannastefnunnar og er hliðstætt samstarfsvettvangi ESB og nágrannaríkja þess í austri.

Markmið samvinnu Evrópu og Miðjarðarhafslanda er að efla stöðugleika og velmegun í Miðjarðarhafslöndunum. Einnig er ætlunin að koma á fót fríverslun milli ESB og samstarfsríkjanna.

Á vettvangi samvinnunnar eru starfræktar nokkrar stofnanir og annað hvert ár er haldinn sérstakur leiðtogafundur. Fyrsti fundurinn fór fram í París árið 2008. Næsta fund átti að halda sumarið 2010 en var frestað nokkrum sinnum, meðal annars vegna átakanna milli Ísrael og Palestínu. Honum hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma. Einnig er starfrækt aðalskrifstofa sem hefur aðsetur í Barcelona og þing sem starfar í fjórum nefndum. Tvö ríki fara með formennsku í samvinnunni á hverjum tima, formennskuríki ESB og eitt samstarfsríki. Þegar þetta er skrifað í ágúst 2013 eru þessi ríki Litháen og Jórdanía.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.8.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Samvinna Evrópu og Miðjarðarhafslanda“. Evrópuvefurinn 23.8.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65678. (Skoðað 28.3.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Frekara lesefni á Evrópuvefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela