Spurning

Verða sterar leyfðir ef Ísland gengur í ESB?

Spyrjandi

Hrund

Svar

Vefaukandi sterar (e. anabolic steroids) eru oft notaðir í læknisfræðilegum tilgangi. Spyrjandi á þó væntanlega ekki við slíka notkun, heldur ólöglega notkun þeirra. Verður spurningunni svarað út frá þeim formerkjum. Nánar má lesa um virkni vefaukandi stera í svari Vísindavefsins við spurningunni Hvernig verka vefaukandi sterar?

Á Íslandi er notkun vefaukandi stera bönnuð. Hér á landi eru þeir fyrst og fremst misnotaðir í tengslum við kraftíþróttir, svo sem lyftingar og vaxtarrækt.


Vefaukandi sterar í töfluformi.

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst eru engar samræmdar reglur innan Evrópusambandsins sem leyfa eða banna misnotkun vefaukandi stera. Af því leiðir að aðildarríkjum ESB er í sjálfsvald sett hvort þau leggi bann við misnotkun þeirra. Víðast hvar innan sambandsins virðist misnotkun þeirra þó vera ólögleg. Í Bretlandi eru vefaukandi sterar til að mynda flokkaðir sem ólögleg fíkniefni og þá er eingöngu hægt að kaupa í læknifræðilegum tilgangi gegn framvísun lyfseðils. Svipaðar reglur gilda í Danmörku og Svíþjóð. Á Íslandi mundu vefaukandi sterar því ekki verða löglegir við inngöngu í Evrópusambandið.

Þrátt fyrir skort á samhæfðum Evrópureglum um misnotkun vefaukandi stera leggst sambandið hins vegar opinberlega gegn misnotkun þeirra, sem og raunar annarra fíkniefna. Árið 2012 var til að mynda gefin út skýrsla á vegum ráðsins um misnotkun áhugaíþróttafólks á vefaukandi sterum. Beinist sú umfjöllun sérstaklega að þeim sem stunda vaxtarrækt. Þar segir að misnotkun vefaukandi stera hjá þessum hópi sé vaxandi vandamál innan Evrópusambandsins. Leggja þurfi meiri áherslu á að sporna gegn misnotkun steranna hjá þessum hópi fólks, líkt og gert hefur verið hjá atvinnuíþróttafólki. Það sé meðal annars gert með auknu samstarfi, fræðslu og upplýsingaflæði milli ESB-ríkja. Koma þurfi upp rammaáætlun um samhæfðar rannsóknir og refsiaðgerðir vegna smygls og sölu vefaukandi stera yfir landamæri.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur31.1.2014

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Verða sterar leyfðir ef Ísland gengur í ESB?“. Evrópuvefurinn 31.1.2014. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65196. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela