Spurning

Hvernig eru lögin á Íslandi í sambandi við litmerkibyssur og hvernig eru þau á Norðurlöndunum og hjá Evrópusambandinu?

Spyrjandi

Kristinn Gunnarsson

Svar

Á Íslandi gilda reglur um litmerkibyssur (e. paintball guns eða markers) sem settar voru af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 26. júní árið 2000. Reglurnar taka meðal annars til þess hvar megi nota litmerkibyssur, hverjir megi nota þær og hvernig vörslu þeirra skuli háttað. Á hinum Norðurlöndunum er að finna svipaðar reglur. Evrópusambandið hefur ekki gefið út sérstakar reglur um litmerkibyssur eða litboltaleik og er aðildarríkjunum því í sjálfsvald sett hvernig þau haga löggjöf sinni á þessu sviði.

***

Íslenskar reglur um litmerkibyssur voru settar af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 26. júní árið 2000 samkvæmt heimild í d-lið 3. gr. vopnalaga (nr. 16/1998). Reglurnar gilda um kolsýru-, loft- og fjaðurbyssur sem ætlaðar eru til notkunar í litboltaleik og eru hannaðar til að skjóta litboltum sem eru að minnsta kosti 16 mm í þvermál.


Íslenskar reglur um litmerkibyssur gilda um kolsýru-, loft- og fjaðurbyssur sem hannaðar eru til að skjóta litboltum sem eru að minnsta kosti 16 mm í þvermál.

Íslensku reglurnar taka meðal annars til þess hvar megi nota litmerkibyssur, hverjir megi nota þær og hvernig vörslu þeirra skuli háttað. Í reglunum kemur einnig fram að félag sem hefur litboltaleik með litmerkibyssum að markmiði verði að hafa leyfi ríkislögreglustjóra fyrir starfseminni og þarf það að liggja fyrir þegar litmerkibyssur eru fluttar inn. Ungmenni undir 18 ára aldri skulu hafa skriflegt samþykki forráðamanns fyrir þátttöku í litboltaleik og óheimilt er að afhenda barni undir 15 ára aldri litmerkibyssu.

Í Danmörku voru reglur um litmerkibyssur gefnar út af dómsmálaráðuneytinu með dreifibréfi þann 1. febrúar 2013. Reglurnar eru að mörgu leyti svipaðar þeim íslensku nema að þær íslensku eru strangari hvað varðar eignarhald og innflutning á litmerkibyssum. Á Íslandi mega aðeins fyrirtæki eða félagasamtök sem hafa litboltaleik að markmiði eiga litmerkibyssur og flytja þær inn, en slíkar takmarkanir er ekki að finna í dönsku reglunum. Eftir því sem höfundur kemst næst gilda svipaðar reglur á hinum Norðurlöndunum og í Danmörku.


Litboltaleikur telst ekki til ólympískra íþrótta.

Evrópusambandið hefur ekki sett sérstakar reglur er lúta að litmerkibyssum eða litboltaleik. Í tilskipun um eftirlit með öflun og eign vopna (nr. 91/477/ESB) er ekki tekið fram að hún taki til litmerkibyssa. Því verður að ætla að aðildarríkjum Evrópusambandsins sé í sjálfsvald sett hvernig lögum og reglum þar að lútandi er háttað.

Ástæða þess að reglur um litmerkibyssur er að finna í stjórnvaldsfyrirmælum en ekki í vopnalöggjöf ríkja eða tilskipunum Evrópusambandsins er líklega sú að þær teljast ekki til hættulegra vopna. Umræður um skaðsemi litboltaleiks og litmerkibyssa hafa þó sprottið upp. Í Þýskalandi veltu ráðamenn vöngum yfir því hvort banna ætti litboltaleik í landinu eftir skotárás í barnaskóla árið 2009. Árásarmaðurinn var yfirlýstur unnandi litboltaleiks og ofbeldisfullra tölvuleikja og var því talið að litboltaleikur gæti leitt til árásargjarnrar hegðunar. Hætt var þó við bannið og er litboltaleikur áfram leyfður í Þýskalandi.

Til eru fjölþjóðleg litboltasamtök sem kallast European Paintball Federation (EPBF). Samtökin eru ekki opinber og ekki á vegum Evrópusambandsins. Þau hafa það meðal annars að markmiði að efla litboltaleiksíþróttina í álfunni og sjá til þess að leikreglum sé fylgt. Þá eru haldin stórmót á vegum EPBF, svo sem Evrópumót og heimsmeistaramót í litboltaleik.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.6.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hvernig eru lögin á Íslandi í sambandi við litmerkibyssur og hvernig eru þau á Norðurlöndunum og hjá Evrópusambandinu?“. Evrópuvefurinn 28.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=18986. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela