Spurning

Er Evrópuvefurinn og Evrópustofa sama fyrirbærið?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Starfsmenn Evrópuvefsins verða þess reglulega varir að ekki sé gerður greinarmunur á Evrópuvefnum annars vegar og Evrópustofu hins vegar. Að gefnu tilefni verður því fjallað hér aðeins um muninn á Evrópuvefnum og Evrópustofu.


Evrópuvefurinn og Evrópustofa gegna bæði hlutverki upplýsingaveitu um Evrópusambandið en starfa algjörlega óháð hvort öðru. Evrópuvefurinn er rekinn af Vísindavef Háskóla Íslands fyrir fjármagn frá Alþingi. Samkvæmt þjónustusamningi Vísindavefsins og Alþingis er tilgangur Evrópuvefsins að veita hlutlægar, málefnalegar og trúverðugar upplýsingar um Evrópusambandið og Evrópumál. Starfsemi Evrópuvefsins felst fyrst og fremst í rekstri vefsíðu þar sem spurningum lesenda er svarað að fyrirmynd Vísindavefsins, sem hefur svarað spurningum almennings um hvers kyns vísindi í þrettán ár.

Hverjum sem er gefst kostur á að senda inn spurningar og er þeim svarað svo fljótt sem auðið er, ýmist af starfsmönnum Evrópuvefsins eða öðrum höfundum. Allt kapp er lagt á að svörin séu málefnaleg og vönduð og að skýrt sé greint á milli staðreynda annars vegar og viðhorfa hins vegar. Nánar er fjallað um Evrópuvefinn í svörum við eftirfarandi spurningum Fær Evrópuvefurinn framlög frá ríkinu eða einhverjum öðrum til þess að halda úti vefnum? og Er beinagrind Evrópuvefjarins búin til af starfsmönnum ESB og er hún, að efni til, svipuð og í öðrum löndum sem hafa hafið umsóknarferli að ESB?

Starfsmenn Evrópuvefsins hafa einnig haldið kynningar á starfsemi vefsins og mikilvægi hlutlægra upplýsinga í umræðunni um Evrópusambandið. Slíkar kynningar hafa fyrst og fremst verið haldnar í framhaldsskólum en einnig meðal annars í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þeim sem hafa áhuga á að fá starfsmenn Evrópuvefsins í kynningarheimsókn er bent á að senda tölvupóst á netfangið evropuvefur@hi.is.


Evrópustofa er upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins um sjálft sig. Hún er fjármögnuð af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og rekin af Athygli ehf. og þýska almannatengslafyrirtækinu Media Consulta. Á vefsíðu Evrópustofu kemur fram að markmið hennar sé „að stuðla að aukinni umræðu, þekkingu og skilningi á eðli og starfsemi ESB“ en þar má einnig nálgast frekari upplýsingar um starfsemi Evrópustofu.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur15.3.2013

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er Evrópuvefurinn og Evrópustofa sama fyrirbærið?“. Evrópuvefurinn 15.3.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64608. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela