Spurning

Í hvaða ESB-löndum er vændi leyfilegt og hefur ESB markað sér einhverja stefnu í vændismálum?

Spyrjandi

Árni Vilhjálmsson

Svar

Vændi er leyfilegt í flestum aðildarríkjum Evrópusambandsins í einhverri mynd. Reglur um vændið eru þó mjög mismunandi milli ríkja og hefur Evrópusambandið ekki gefið út samræmda stefnu um vændismál innan sambandsins. Öðru máli gegnir um þvingað vændi, svo sem mansal og barnavændi, en Evrópusambandið hefur með ýmsu móti beitt sér fyrir því að það skuli upprætt í ríkjum sambandsins.

***

Innan Evrópusambandsins er ekki að finna samræmdar reglur um vændi, heldur er ríkjunum í sjálfsvald sett hvernig þau haga löggjöf sinni. Hvert aðildarríki hefur því sínar eigin reglur um vændi og í grunninn eru regluverkin sem ríkin hafa aðhyllst aðallega þrenns konar.


Rauða hverfið í Amsterdam.

Í fyrsta lagi er vændið löglegt en undir eftirliti. Ríki innan ESB sem haga löggjöf sinni á þennan hátt eru til dæmis Þýskaland og Holland. Þeir sem stunda vændi þar, greiða skatta af tekjum sínum og tilheyra velferðarkerfinu.

Í öðru lagi er vændi með öllu ólöglegt. Einu aðildarríki ESB þar sem það á við eru Rúmenía, Króatía og Litháen.

Í síðasta lagi er vændið löglegt að hluta til. Svíþjóð er dæmi um ríki sem hefur þennan háttinn á enda hefur þessi leið verið nefnd „sænska leiðin“. Hún gengur út á að vændiskaup séu ólögleg en vændið sjálft löglegt. Vændissalanum verður þá ekki gerð refsing heldur aðeins kaupandanum. Þess má geta að Ísland og Noregur hafa einnig kosið að fara þessa leið. Í öðrum ríkjum sem leyfa vændi að hluta til, svo sem Ítalíu, er vændi löglegt en vændishús aftur á móti bönnuð.

Hægt er að lesa meira um þetta í svari við spurningunni Hvaða lög og reglur gilda um vændi í ríkjum Evrópusambandsins?

Dæmin sýna að aðildarríki ESB fara ólíkar leiðir í vændismálum. Margir hafa gagnrýnt þetta ósamræmi innan Evrópusambandsins og harma að ekki sé til ein stefna sem taki til allra ríkjanna. Innan stofnana Evrópusambandsins er vændi ekki tíðrætt og Evrópusambandið hefur veigrað sér við því að láta í ljós álit sitt á vændi. Öðru máli gegnir hins vegar um þvingað vændi, það er barnavændi og mansal, en ESB hefur með ýmsu móti beitt sér fyrir að því skuli útrýmt innan sambandsins. Í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi er lagt blátt bann við mansali.

Þann 5. apríl 2011 var gefin út tilskipun nr. 2011/36/EU sem sporna á við mansali og vernda fórnarlömb þess. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á von á því að tilskipunin muni hafa mikil áhrif þar sem hún komi í veg fyrir glæpi og gefi fórnarlömbum mansals tækifæri til að leita sér hjálpar og auðveldi þeim að aðlagast aftur að samfélaginu. Enn fremur hefur Evrópusambandið markað stefnu sem á að stuðla að upprætingu mansals fyrir árin 2012-2016. Á komandi árum er ætlunin að skilgreina, vernda og aðstoða fórnarlömb mansals; auka saksókn manseljenda; samræma aðgerðir og auka vitundarvakningu.

Evrópuþingið stóð fyrir herferð gegn mansali árið 2006, í tengslum við heimsmeistaramótið í fótbolta í Þýskalandi. Rannsóknir sýna að mansal eykst í kringum stóra íþróttaviðburði og átti herferðin að fyrirbyggja slíkt. Herferðin bar nafnið „Rauða spjaldið gegn mansali“ og þótti heppnast vel, en aðeins voru skráð 5 mansalstilfelli þegar mótið átti sér stað.

Heimildir og mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hver er afstaða ESB varðandi klámiðnað og vændi?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.8.2013

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Í hvaða ESB-löndum er vændi leyfilegt og hefur ESB markað sér einhverja stefnu í vændismálum?“. Evrópuvefurinn 9.8.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63761. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela