Spurning

Eru Króatar fylgjandi þjóðernishreinsunum undir vissum kringumstæðum?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Eru vísbendingar um að almenningur í Króatíu telji þjóðernishreinsanir nauðsynlegar undir vissum kringumstæðum, sbr. viðbrögð þegar Gótóvína hershöfðingja var sleppt úr fangelsi alþjóðastríðsglæpadómstólsins?

Orðið þjóðernishreinsanir er siðferðislegt hugtak en ekki lagalegt þótt það hafi öðlast æ ríkari sess í alþjóðlegri réttarhefð. Í orðsins fyllstu merkingu er um að ræða ásetning og takmark um að hreinsa land eða svæði af 'óæskilegum aðkomumönnum' og reka þá burt til að koma viðkomandi landsvæði á nýjan leik undir 'réttmæta stjórn'. Strangt til tekið er ekki ýkja mikill munur á þjóðernishreinsunum annars vegar og þjóðarmorði hins vegar þar sem gjöreyðing annars hópsins af hendi hins er endanlegt markmið þótt það síðarnefnda gangi augljóslega miklu lengra.

Í stríðinu í löndum fyrrum Júgóslavíu voru margs konar voðaverk framin af hálfu einstaklinga af öllum þjóðernum. Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í málefnum fyrrum Júgóslavíu (e. International Criminal Tribunal for the former Yugoslavia, ICTY) hefur gefið út ákærur á hendur 161 einstaklingi, þeirra á meðal eru 94 Serbar, 29 Króatar, 9 Albanir, 9 Bosníumenn, 2 Makedóníumenn og 2 Svartfellingar.


Króatísku hershöfðingjarnir Ante Gotovina og Mladen Markaĉ fyrir dómi Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í málefnum fyrrum Júgóslavíu í Haag í Hollandi.

Ante Gotovina, helsti hershöfðingi Króata, er sá einstaklingur sem margir eigna og jafnvel þakka viðsnúning stríðsins sem braust út þegar Króatía lýsti yfir sjálfstæði sínu í júní 1991. Sjálfstæðisyfirlýsingin var Serbum mjög í óþökk og brugðust þeir við með því að ráðast inn í landið. Á fyrstu árum stríðsins vegnaði Serbum vel enda réðu þeir yfir bæði herafla og vopnabúnaði sem Króatar gerðu ekki. Gotovina öðlaðist í hugum margra samlanda sinna ímynd hetjunnar sem barðist gegn ofurefli innrásaraðilans og hafði um síðir betur. Hann var, eins og fleiri þátttakendur hildarleiksins, ákærður af ICTY fyrir ýmis konar meinta stríðsglæpi í eftirmála hernaðaraðgerðarinnar Operation Storm sem breytti gangi stríðsins. Hvergi í ákærunum er þó minnst einu orði á þjóðernishreinsanir. Í undirrétti var Gotovina sakfelldur en áfrýjunardómstóll ICTY sýknaði hann síðar af öllum ákæruliðum á þeim forsendum að sannanlega hefði hernaðaraðgerðinni aðeins og eingöngu verið beint að hernaðarlega mikilvægum skotmörkum en ekki að óbreyttum borgurum.

Engar vísbendingar hafa komið fram um að almenningur í Króatíu sé fylgjandi þjóðernishreinsunum. Gleði hins almenna borgara í Króatíu þegar Gotovina var látinn laus í kjölfar úrskurðarins átti ekki rætur sínar að rekja til ánægju eða velþóknunar á þjóðernishreinsunum heldur til þess að mörgum fannst Gotovina hafa verið gert rangt til af hálfu ICTY. Króatía, sem hafði loksins öðlast langþráð sjálfstæði, hafi átt sjálfsagðan rétt á því að verja hendur sínar gegn innrás annars ríkis eins og aðrar þjóðir. Fyrir Króötum var Gotovina því bjargvætturinn sem rak innrásarherinn af höndum Króata með Operation Storm, sem í þeirra augum var réttmæt varnaraðgerð.

Heimildir og myndir:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela