Spurning

Er eitthvað til í því að í Evrópusambandinu sé bannað að nota kaffi til að drepa snigla?

Spyrjandi

Kristján Birgisson

Svar

Í Evrópusambandinu gilda strangar reglur um svonefnd plöntuvarnarefni, sem eru meðal annars notuð til að vernda plöntur gegn skaðlegum lífverum, en þau má hvorki setja á markað né nota nema að fengnu markaðsleyfi í aðildarríkjum ESB. Það er því óheimilt að framleiða vöru sem inniheldur kaffi/kaffikorg/koffín og markaðssetja hana sem plöntuvarnarefni nema að fengnu leyfi í aðildarríkjum ESB. Hvort sömu reglur gildi einnig um uppáhelling og kaffikorg er álitamál.

***

Frá því hefur verið sagt í breskum fjölmiðlum (sjá umfjöllun í Dailymail og Independent) síðustu daga að vegna löggjafar Evrópusambandsins um varnarefni (e. pesticides) sé óheimilt að nota kaffi eða kaffikorg til að koma í veg fyrir að sniglar (brekkusniglar, e. slugs) valdi tjóni á plöntum, en samkvæmt sömu fréttum ku það vera algengt húsráð í Bretlandi. – Rétt er að geta þess að Evrópuvefnum hefur ekki tekist að finna neitt sem staðfestir þá fullyrðingu í frétt Dailymail að embættismenn ESB í Brussel hafi „úrskurðað“ að það brjóti í bága við reglur ESB að dreifa kaffikorgi í kálbeðið.


Fram hefur komið í fréttum að sniglar séu ekki hrifnir af kaffi.

Til varnarefna teljast annars vegar plöntuvarnarefni (e. plant protection products) og hins vegar sæfiefni (e. biocidal products). Notkun plöntuvarnarefna með virkum efnum (e. active substances) er ein af algengustu aðferðunum til að vernda plöntur og plöntuafurðir fyrir áhrifum skaðlegra lífvera. Mörg virk efni eru hins vegar hættuleg bæði mönnum, dýrum og umhverfinu og því gilda strangar reglur um plöntuvarnarefni í Evrópusambandinu.

Ein mikilvægasta lagagerð ESB um plöntuvarnarefni er reglugerð (nr. 1107/2009) um markaðssetningu plöntuvarnarefna. Markmið hennar er að tryggja að aðeins séu á markaði plöntuvarnarefni sem geta talist örugg fólki og umhverfi. Til stendur að innleiða þessa reglugerð í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins á þessu ári (sjá frumvarp til efnalaga).

Eins og fram hefur komið í breskum fjölmiðlum er óheimilt, samkvæmt ofannefndri reglugerð, að markaðssetja eða nota tiltekið plöntuvarnarefni nema það hafi fengið markaðsleyfi hjá yfirvöldum í viðkomandi aðildarríki. Skilyrði fyrir veitingu markaðsleyfis er að plöntuvarnarefnið hafi undirgengist samræmda áhættuprófun, sem kveðið er á um í reglugerðinni. Plöntuvarnarefni sem ekki hafa fengið markaðsleyfi, hvort sem er vegna þess að þau hafa ekki verið prófuð eða hafa ekki staðist prófun, er bannað að markaðssetja og nota í aðildarríkjum ESB.

Af því mætti álykta, eins og gert hefur verið í breskum fjölmiðlum, að þar sem kaffi hefur ekki markaðsleyfi sem plöntuvarnarefni sé óheimilt að nota það til að vinna bug á skaðsemi snigla. Þá ber hins vegar að huga að því hvað beinlínis er átt við með plöntuvarnarefnum. Samkvæmt reglugerðinni um markaðssetningu plöntuvarnarefna eru plöntuvarnarefni „vörur, á því formi sem þær eru látnar notendum í té, sem samanstanda af eða innihalda virk efni, eiturdeyfi eða hjálparefni, og eru ætlaðar til einhverra eftirtalinna nota:

  1. að verja plöntur eða plöntuafurðir gegn öllum skaðlegum lífverum eða koma í veg fyrir aðgerðir slíkra lífvera, nema ef megintilgangur varanna er talinn vera að gæta hreinlætis frekar en að verja plöntur eða plöntuafurðir;
  2. að hafa áhrif á lífsferil plantna, svo sem efni sem hafa áhrif á vöxt, önnur en næringarefni;
  3. að varðveita plöntuafurðir, að því leyti sem slík efni eða vörur heyra ekki undir sérstakar bandalagsreglur um rotvarnarefni;
  4. að eyða óæskilegum plöntum eða plöntuafurðum, að undanskildum þörungum nema vörurnar séu notaðar á jarðveg eða vatn til varnar plöntum;
  5. að stöðva eða koma í veg fyrir óæskilegan vöxt plantna, að undanskildum þörungum nema vörurnar séu notaðar á jarðveg eða vatn til varnar plöntum.“ (sbr. 1. mgr. 2.gr.)

Þótt vera megi að kaffi falli undir lið a, að því leyti að það verji plöntur eða plöntuafurðir gegn skaðsemi snigla, er ljóst að kaffi er hvorki ætlað til slíkra nota né selt í þeim tilgangi. Það er því ekki einsýnt að um kaffi gildi sömu reglur og um plöntuvarnarefni jafnvel þótt garðyrkjumenn og -konur helli kaffilögginni úr bollum sínum eða strái kaffikorgi yfir kálbeðið. Í öllu falli er ekki við því að búast að það sé refsivert að nota, í stað hefðbundinna plöntuvarnarefna, efni sem ekki er skaðlegra mönnum en svo að þeir leggja sér það til munns.

Til fróðleiks má geta þess að lítið liggur fyrir af rannsóknum sem sanna að hið holla húsráð Breta sé jafn gagnlegt og gefið hefur verið til kynna í breskum fjölmiðlum. Í einu vísindalegu rannsókninni sem gerð hefur verið á áhrifunum var hvorki notaður kaffikorgur né uppáhellingur heldur koffínlausn. Niðurstöður rannsóknarinnar voru jákvæðar, það er að segja með koffínlausn tókst að verja tilteknar plöntur fyrir skaðsemi snigla (Hollingsworth, Armstrong, Campbell, 2003).

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Er eitthvað til í þessu? Use coffee to beat slugs? Beware, the EU pesticide police are on your trail. Er átt við bann við notkun eða bann við markaðssetningu?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur31.8.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Er eitthvað til í því að í Evrópusambandinu sé bannað að nota kaffi til að drepa snigla?“. Evrópuvefurinn 31.8.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63132. (Skoðað 13.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela