Spurning

Hvað er lýðræði?

Spyrjandi

Halldóra Ágústsdóttir, Styrmir Jökull, Sólveig Lilja, Sara Sigurbjörnsdóttir

Svar

Orðið lýðræði getur annars vegar snúið að því hvernig grunnstofnunum er fyrir komið í samfélaginu og hvernig fólk velur valdhafa eða skiptir um þá. Einnig getur lýðræði snúist um það hvernig taka skuli ákvarðanir í hópi fólks. Í svarinu er einnig fjallað um svonefnt fulltrúalýðræði í samanburði við beint lýðræði. Einn þáttur í lýðræði er sá að vald sé ekki bundið forréttindum, til dæmis ætt eða þjóðerni. Frjálsar kosningar skipta máli ásamt opinni og almennri rökræðu. Sumir fræðimenn leggja þó meiri áherslu á opna og frjálsa samkeppni hugmyndanna.

***

Tvenns konar lýðræði

Gjarnan er gerður greinarmunur á tvenns konar hugtökum um lýðræði, stjórnskipunarlýðræði og ákvörðunarlýðræði. Sem stjórnskipan fjallar lýðræði um skipulag grunnstofnana samfélagsins, bæði dreifingu valds og ábyrgðar og hvernig fólk getur valið og skipt um valdhafa á friðsaman hátt. Andstæða lýðræðis í þessum skilningi er til dæmis konungsvald, harðstjórn eða stjórnleysi.

Lýðræði sem tæki til að taka ákvarðanir um hagsmunamál fólks – sem það kann þó að vera ósammála um – snýst ekki um að útdeila valdi heldur einfaldlega um hvernig skuli taka ákvörðun í hópi fólks. Ákvörðun getur verið lýðræðisleg í þessum skilningi hvort sem hún er ákvörðun krakka um að kaupa bland í poka frekar en súkkulaði eða ákvörðun þjóðar um að afsala sér fullveldi eða sjálfstæði.

Fulltrúalýðræði og beint lýðræði

Stjórnskipunarlýðræði gerir ráð fyrir dreifingu valds og aðgreiningu ólíkra valdastofnana, en þar fyrir utan getur það tekið á sig ólíkar myndir. Á Íslandi einkennist stjórnskipanin af fulltrúalýðræði sem felst í því að á Alþingi, sem fer með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands, sitja kjörnir fulltrúar almennings. Í stað fulltrúa á Alþingi mætti hugsa sér beint lýðræði þar sem löggjafarvaldið væri hjá fólkinu sjálfu, það er að lög væru sett og ákvarðanir teknar í almennum kosningum. Slíkt beint lýðræði væri að vísu mjög tímafrekt, dýrt, svifaseint og erfitt í framkvæmd af ýmsum ástæðum, til dæmis þeirri að líklega myndu mjög margir verða þreyttir á eilífum kosningum og ekki nenna að taka þátt. Það mætti þó vel hugsa sér einhverja millileið eða blöndu af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði þar sem settar væru ákveðnar reglur um hvernig mætti vísa málum beint til þjóðarinnar.

Lýðræðislegt samfélag

Þegar talað er um lýðræðislegt samfélag þá tvinnast ákvörðunarlýðræði og stjórnskipunarlýðræði saman á margvíslegan hátt. Í lýðræðislegu samfélagi einkennist skipulag valdastofnana af valddreifingu, einkum þannig að (a) þær skiptast með skýrum hætti í dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdavald, (b) að á milli þessara þriggja valdsviða er skýr verkaskipting þannig að bæði dómsvaldið og löggjafarvaldið séu óháð framkvæmdavaldinu og (c) að það vald, sem fylgir tilteknum embættum, er ekki bundið forréttindum, til dæmis ætt eða þjóðerni, heldur sé því úthlutað á jafnræðisgrundvelli, til dæmis í frjálsum og sanngjörnum kosningum. Í seinna lagi þurfa meiriháttar ákvarðanir sem varða almannahagsmuni að vera teknar með lýðræðislegum hætti. Hér skipta frjálsar kosningar miklu máli, en líka opin og almenn umræða, aðgangur að upplýsingum og margvíslegt samráð.

Bandaríski heimspekingurinn Seyla Benhabib hefur skilgreint lýðræði á eftirfarandi hátt:
lýðræði [er] líkan sem nota má til að skipuleggja bæði sameiginlega og opinbera beitingu valdsins í stærstu stofnunum samfélagsins. Þetta skal gert á grunvelli þeirrar meginreglu að hægt sé að líta á þær ákvarðanir sem hafa áhrif á farsæld samfélagsheildarinnar sem niðurstöðu ferlis þar sem frjálsar og skynsamlegar rökræður fara fram á milli einstaklinga sem teljast siðferðilegir og pólitískir jafningjar. (Ritið, 5. ár, nr. 2, 2005)

Áhersla Seylu Benhabib á að líta megi á ákvarðanir sem niðurstöðu skynsamlegar rökræðu setur hana í flokk með þeim fræðimönnum sem tala fyrir því sem kallað hefur verið rökræðulýðræði (e. deliberative democracy). Aðrir fræðimenn, til dæmis Robert A. Dahl, gera minna úr hlut rökræðunnar og lýsa hinu lýðræðislega ferli fremur sem opinni og frjálsri samkeppni. Þannig setur Dahl fram viðmið fyrir lýðræðislegt ferli í fimm liðum sem kveða á um (1) virka þátttöku borgaranna, (2) jafnvægi atkvæða á lokastigi ákvörðunar, (3) upplýstan skilning borgaranna, (4) að borgararnir ráði því hvaða mál séu tekin fyrir, og (5) að allir hafi rétt til þátttöku. Hér er engin sérstök áhersla á rökræðu heldur er einfaldlega gert ráð fyrir að allir hafi fengið að taka þátt í umræðunni (Sjá til dæmis grein Ólafs Páls, „Prútt eða rök og réttlæti“).

Lýðræði, skóli og lífsmáti

Lýðræðinu skýtur upp víðar og ekki alltaf ljóst hvernig á að skilja það. Í lögum um grunnskóla segir til að mynda að starfshættir skóla skuli vera lýðræðislegir. Hvernig á að skilja þetta? Lýðræði sem stjórnskipulag og samfélagsgerð á sér ekki nema mjög takmarkaða samsvörun í daglegum starfsháttum í skólum. Lýðræði í samfélagi varðar það hvernig sjálfráða jafningjar ráða ráðum sín á milli, útdeila valdi og hvernig fara má með opinbert vald, hvort sem það er bundið tilteknum stofnunum eða embættismönnum. Skólinn er hins vegar ekki samfélag jafningja í sama skilningi því kennarinn er ekki jafningi nemendanna, nemendurnir velja sér ekki yfirmenn og langanir þeirra og óskir hafa ekki nema takmarkað vægi hvort sem um er að ræða daglegt starf eða langtíma markmið. Af þessum sökum er alls ekki ljóst hvað það er fyrir starfshætti skóla að vera lýðræðislegir, og enn síður hvort lýðræðislegir starfshættir (hvernig sem þeir annars eru) séu yfirleitt eftirsóknarverðir í skóla.

Bandaríski heimspekingurinn John Dewey áleit að lýðræði, sem tilteknir stjórnarhættir eða stjórnskipulag, verði einungis að veruleika ef það á rætur í einstaklingsbundnum lífsmáta og skapgerð borgaranna. Í hans huga var trúin á lýðræði fyrst og fremst trú á manneskjuna sem virka skynsemisveru. Hugmynd Deweys um lýðræði er í senn hugmynd um ákveðna samfélagsgerð og ákveðið einstaklingseðli: hið lýðræðislega samfélag verður ekki að veruleika nema einstaklingarnir sem byggja það hafi ræktað með sér lýðræðislegt einstaklingseðli.

Lýðræði í þessum skilningi er ekki bundið við afmörkuð svið tilverunnar, svo sem formleg samskipti þar sem tekist er á um vald heldur er lýðræðið samveruháttur sem tekur til allra sviða lífsins. Það þarf, ef svo má segja, að renna manni í merg og bein því annars getur það ekki verið ráðandi um það hvaða augum menn líta samborgara sína, hvernig menn nálgast aðra þegar leiðir skerast og hvernig menn bregðast við ágreiningi og breytileika. Lýðræði í þessum skilningi, verður að birtast í ómeðvituðum viðbrögðum og viðhorfum ekki síður en í viðbrögðum sem eru meðvituð og jafnvel stofnanabundin.

Heimildir og frekara lesefni:
  • Benhabib, Seyla, „Rökræðulýðræði og fjölmenningarleg togstreita“, Ritið, 5. ár, nr. 2, 2005.
  • Mouffe, Chantal, „Til varnar ágreiningslíkani um lýðræði“, Hugur, 16. ár, 2004.
  • Ólafur Páll Jónsson, „Lýðræði, menntun og þátttaka“, Netla, 30. desember 2008.
  • Ólafur Páll Jónsson, „Prútt eða rök og réttlæti“, Náttúra, vald og verðmæti, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2007.
  • Vilhjálmur Árnason, Farsælt líf, réttlátt samfélag, Reykjavík 2008.
  • Þorsteinn Gylfason, Réttlæti og ranglæti, Heimskringla, Reykjavík 1998.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur27.2.2009

Tilvísun

Ólafur Páll Jónsson. „Hvað er lýðræði?“. Evrópuvefurinn 27.2.2009. http://evropuvefur.is/svar.php?id=16021. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

Ólafur Páll Jónssonprófessor í heimspeki við HÍ

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela