Spurning

Hversu mörg ríki eru í fleiri en einni heimsálfu?

Spyrjandi

Andri Snær Ólafsson, f. 1989

Svar

Í eftirfarandi svari er miðað við mörk heimsálfanna eins og þeim í lýst í svari við spurningunni Hvernig eru nöfn heimsálfanna til komin?

Til þess að svara þessari spurningu þarf fyrst að ákveða hvort eingöngu er átt við þau ríki sem mörk heimsálfanna liggja í gegnum eða hvort einnig er átt við þau ríki sem „eiga“ eyjar eða landsvæði í annarri heimsálfu en þau tilheyra sjálf.

Ef miðað er við hið fyrrnefnda þá eru nokkru ríki sem fjalla í þann flokk, flest sem teljast landfræðilega bæði til Evrópu og Asíu en eitt telst bæði til Afríku og Asíu.

Fyrst má nefna Rússland en „línan“ sem skilur að Evrópu og Asíu liggur í gegnum það þannig að sá hluti landsins sem er vestan Úralfjalla er Evrópumegin línunnar en austurhlutinn er í Asíu. Í þennan flokk falla einnig Georgía, Aserbaídsjan og Kasakstan en þau liggja öll að litlum hluta innan Evrópu og tilheyra því í raun tveimur heimsálfum.

Það sama gildir um Tyrkland þar sem mörk Evrópu og Asíu liggja um Bospórussund þannig að sá litli hluti landsins sem er norðan sundsins tilheyrir Evrópu en megin hlutinn tilheyrir Asíu.

Egyptaland er hins vegar bæði í Afríku og Asíu en mörkin á milli þessar tveggja heimsálfa eru venjulega talin liggja um Súezskurðinn. Það veldur því að norð-austasti hluti landsins, Sínaískaginn, tilheyrir Asíu landfræðilega þó svo Egyptaland í heild teljist til Afríku.

Mörkin á milli Norður- og Suður-Ameríku er yfirleitt sögð liggja um Panamaeiði (e. Isthmus of Panama) en það er mjóa landræman sem ríkið Panama nær yfir og tengir þessar tvær heimsálfur saman. Ef hins vegar á að draga eina mjóa línu sem skilur að heimsálfurnar er gjarnan miðað við landamæri Panama og Kólumbíu og samkvæmt því er ekkert ríki sem tilheyrir báðum Ameríkuheimsálfunum.

Fæstum dettur sjálfsagt í hug skoða þurfi mörk Asíu og Eyjaálfu í þessu sambandi þar sem sjór skilur þessar heimsálfur að. En á einum stað, á eyjunni Nýju-Gíneu liggja mörk þeirra á þurrlendi. Vestur hluti eyjarinnar tilheyrir Indónesíu og telst til Asíu en austurhlutinn er sjálfstætt ríki, Papúa Nýja-Gínea, og hluti af Eyjaálfu. Þannig tilheyrir eyjan sjálf tveimur heimsálfum.

Ef við viljum skoða hversu mörg ríki fara með stjórnarfar að einhverju leyti á landsvæðum í fleiri en einni heimsálfu þá lengist listinn. Sem dæmi má nefna að landfræðilega tilheyra Kanaríeyjar Afríku enda aðeins rúmlega 100 km úti fyrir strönd norðvestur Afríku en stjórnarfarslega heyra eyjarnar undir Spán. Þannig má segja að spænskt landsvæði sé í tveimur heimsálfum. Það sama á við um Danmörku sem er í Evrópu en á land í Ameríku, það er Grænland, og Bandaríki Norður Ameríku sem á land í Eyjaálfu (Hawaii).

Bretland, Frakkland og Holland hafa einnig yfirráð að einhverju leyti yfir nokkrum eyjum utan Evrópu og eru það leifar nýlenduveldis þeirra. Í svörum við spurningunum Hvaða lönd tilheyra Bretlandi? og Hvað búa margir í Frakklandi? eru tilteknar þær eyjar sem heyra undir þessi ríki. Hvað varðar Holland þá fer það með yfirráð yfir eyjum í Norður-Ameríku, það er að segja Arúba og Hollensku Antillur í Karíbahafinu, eins og sjá má í svari við spurningunni Hvað eru mörg ríki í Norður- og Suður-Ameríku?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur16.2.2005

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu mörg ríki eru í fleiri en einni heimsálfu?“. Evrópuvefurinn 16.2.2005. http://evropuvefur.is/svar.php?id=4756. (Skoðað 23.4.2024).

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttirlandfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela