Spurning

Samstarfsráð Arabaríkjanna við Persaflóa

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Samstarfsráði Arabaríkjanna við Persaflóa (e. Co-Operation Council for the Arab States of the Gulf, CCASG) eða „Flóaráðinu“ eins og það er yfirleitt kallað var komið á fót árið 1981. Aðildarríki ráðsins eru Sameinuðu arabísku furstadæmin, Konungsríkið Barein, Konungsríkið Sádi-Arabía, Soldánsveldið Óman, Katar og Kúveit. Markmið ráðsins er að efla samstarf aðildarríkjanna sex sem búa yfir stærstu og þekktustu olíulindum heims, en ráðið gerir þeim kleift að tala einni röddu á alþjóðavettvangi.

Aðildarríki Flóaráðsins eru fimmti stærsti viðskiptaaðili Evrópusambandsins. Enginn fríverslunarsamningur er í gildi á milli þessara ríkjasambanda. Fyrstu tilraunir til fríverslunar voru gerðar árið 1988 en samningar reyndust erfiðir og var þeim hætt árið 1990. Önnur tilraun var gerð upp úr síðustu aldamótum en þeim fríverslunarviðræðum var slitið árið 2002 af hálfu Flóaráðsins. Báðir samningsaðilar stefna engu að síður á frekari fríverslunarviðræður.

EFTA-ríkin gerðu fríverslunarsamning við Flóaráðið árið 2009 en sá samningur inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Auk þessa fríverslunarsamnings hefur Ísland gert tvíhliða fríverslunarsamning um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur við Flóaráðið sem kveður á um niðurfellingu eða lækkun tolla á tilteknum landbúnaðarvörum. Flóaráðið felldi til að mynda niður tolla á lifandi hrossum og íslensku lambakjöti á meðan Ísland felldi niður tolla á ýmsum matjurtum, kaffi, kakó og ávaxtasafa.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.10.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Samstarfsráð Arabaríkjanna við Persaflóa“. Evrópuvefurinn 25.10.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=66151. (Skoðað 12.7.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela