Spurning

Hvaða land eða lönd eiga Suðurskautslandið?

Spyrjandi

Alda Björk Egilsdóttir, f. 1996

Svar

Suðurskautslandið er í raun heimsálfa án eiganda því það tilheyrir engu ríki. Það þýðir þó ekki að enginn vilji eiga það. Sjö þjóðir hafa gert tilkall til yfirráða yfir ákveðnum landsvæðum Suðurskautslandsins, það eru Argentína, Ástralía, Bretland, Síle, Frakkland, Nýja-Sjáland og Noregur.


Sjö ríki hafa gert tilkall til lands á Suðurskautslandinu. Að hluta til skarast kröfurnar. Á meðan Suðurskautssamningurinn er í gildi er ekki tekin afstaða til þessara krafna.

Árið 1959 var undirritaður alþjóðlegur sáttmáli um Suðurskautslandið sem tók gildi tveimur árum seinna. Sáttmálinn gengur undir heitinu Suðurskautssamningurinn eða Antarctic Treaty. Að honum stóðu í upphafi tólf ríki sem stunduðu vísindarannsóknir á Suðurskautslandinu og áttu þar hagsmuna að gæta. Þessi ríki voru þau sjö sem höfðu gert tilkall til landsvæða auk Belgíu, Japan, Suður-Afríku, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Seinna hafa fleiri ríki gerst aðilar að samningnum og eru þau nú 50 talsins.

Ríkin hafa þó ekki öll jafnt vægi þegar kemur að málefnum Suðurskautslandsins heldur skiptast þau í tvo hópa, annars vegar ríki sem hafa atkvæðisrétt þegar kemur að ákvörðunum og hins vegar ríki sem hafa rétt til þátttöku á fundum en ekki atkvæðisrétt.

Í sáttmálanum er sérstaklega kveðið á um að á gildistíma hans skuli ekki tekið á neinn hátt á þeim kröfum um landsvæði sem áður höfðu verið settar fram, þær hvorki samþykktar né þeim hafnað og nýjar kröfur verði ekki heldur teknar til umfjöllunar.

Með samningnum er Suðurskautslandið lýst friðland og óheimilt að nota það í þágu hernaðar á neinn hátt. Þar er bannað að sprengja kjarnorkusprengjur eða geyma kjarnorkuúrgang. Lögð er áhersla á að þar fari fram vísindarannsóknir, við þær skuli samvinna milli þjóða höfð að leiðarljósi og þekkingu og niðurstöðum deilt með öðrum.

Seinna bættust við fleiri samningar. Sá mikilvægasti var samþykktur árið 1991 og tók gildi 1998. Fjallar hann sérstaklega um umhverfisvernd þar sem meðal annars er kveðið á um að ekki megi stunda námugröft á Suðurskautslandinu í 50 ár. Aðrir samningar sem áður höfðu verið gerðir snerta verndun fugla- og dýralífs, verndun sela og stjórnun á nýtingu sjávarauðlinda.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.9.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða land eða lönd eiga Suðurskautslandið?“. Evrópuvefurinn 12.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65561. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttirlandfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela