Spurning

Nettógreiðendur og nettóþiggjendur

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Nettógreiðendur eru þau aðildarríki ESB kölluð sem greiða meira í sjóði ESB en þau fá til baka úr þeim. Að sama skapi eru nettóþiggjendur þau ríki sem fá meira úr sjóðum ESB en þau greiða í þá.

Tekjur Evrópusambandsins samanstanda að langmestum hluta af framlögum frá aðildarríkjunum. Framlögin eru sett saman úr ákveðnu hlutfalli af tilteknum tekjustofnum sem aðildarríkin koma sér saman um, yfirleitt til sjö ára í senn. Stærstur hluti tekna ESB (75 %) er ákveðið hlutfall af vergum þjóðartekjum aðildarríkjanna. Það eru því stærstu og best stæðu aðildarríkin sem borga mest í sjóði sambandsins en þau sem lakar standa greiða minna.

Aðildarríkin fá öll stóran hluta framlaga sinna til baka í formi styrkja meðal annars til landbúnaðar og ýmissa verkefna sem heyra undir byggðastefnu sambandsins. Byggðastefnunni er ætlað að draga úr efnahagslegum og félagslegum mun á milli svæða sambandsins með því að bæta hag þeirra svæða sem eru verst sett. Aðildarríkin greiða því ekki aðeins mismikið í sjóði sambandsins heldur fá þau einnig mismikið úr þeim aftur.

Stærstu nettógreiðendur Evrópusambandsins eru Þýskaland, Bretland, Frakkland, Ítalía, Holland og Belgía. Stærstu nettóþiggjendur úr sjóðum ESB eru Pólland, Spánn, Grikkland og Ungverjaland. Sé miðað við höfðatölu eru Belgía, Svíþjóð, Þýskaland, Danmörk og Holland stærstu nettógreiðendur sambandsins, og Eistland, Litháen, Grikkland, Lettland og Ungverjaland stærstu nettóþiggjendur.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 1.6.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Nettógreiðendur og nettóþiggjendur“. Evrópuvefurinn 1.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62716. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela