Spurning

Er ekki sjálfsagt að auka gegnsæi og hugsanlega traust með því að starfsmenn Evrópuvefsins gefi upp afstöðu sína til aðildar að ESB?

Spyrjandi

Magnús Axelsson

Svar

Þetta kann vissulega að virðast eðlileg spurning nú á dögum en ekki er allt sem sýnist.

Starfsmenn Evrópuvefsins (EV) hafa ekki frekar en flestir aðrir skýra eða mótaða „afstöðu“ til stórmála eins og aðildar að ESB. Margir eru leitandi í viðhorfum til þess konar mála og forðast ótímabæra afstöðu, til dæmis áður en nægar upplýsingar hafa komið fram. Við þekkjum líka dæmi um þetta úr daglegu lífi: Þegar menn velja sér húsnæði til frambúðar vilja flestir skoða alla kosti og afla upplýsinga þar til málið hefur skýrst nægilega, og gera þá fyrst upp hug sinn.

Það er ekki almenn regla að aðrir eigi rétt á að þekkja skoðanir manna út í hörgul; það fer allavega eftir því hvaða störf eða hlutverk menn hafa tekið að sér. -- Þannig þykir sjálfsagt að skoðanir kjörinna fulltrúa liggi fyrir á öllu því sem við teljum skipta máli í störfum þeirra. -- Hins vegar þekkja menn yfirleitt ekki skoðanir kaupmannanna sem þeir versla við, nema þá að eitthvað sérstakt komi til. -- Önnur störf eða hlutverk eru svo einhvers staðar þarna á milli.

Evrópuvefurinn er fjölmiðill sem hefur það markmið samkvæmt þjónustusamningi að veita hlutlægar, málefnalegar og trúverðugar upplýsingar. Það tíðkast ekki að starfsmenn við slíka fjölmiðlun tjái opinberlega hvernig þeir hyggist ef til vill verja atkvæði sínu í kjörklefum framtíðarinnar. EV vill vinna verk sitt fræðilega og við sem erum starfsmenn hans teljum okkur eiga auðvelt með að setja okkur í spor annarra og lýsa málum frá ýmsum hliðum, óháð eigin skoðunum á einstökum atriðum. Í þessu styðst EV við reynsluna af Vísindavefnum sem hefur skapað sér traust þó að þar sé stundum fjallað um viðkvæm og umdeild mál.

Þegar tveir almennir starfsmenn EV voru valdir úr hópi 108 umsækjenda var alls ekki spurt um skoðanir fólks, heldur lögð megináhersla á faglega reynslu og fræðilega þekkingu sem mundi nýtast í starfinu og falla sem best að því.

Svipað á við um höfunda utan frá sem skrifa svör á Evrópuvefnum: Við höfum ekki áhyggjur af afstöðu þeirra til aðildar að ESB en gerum á hinn bóginn þá kröfu að þeir geti lýst málum frá fleiri hliðum en einni í svörum sínum eftir því sem við á. Og við gerum okkur vonir um góða samvinnu við fjölbreyttan hóp höfunda.

Það er bjargföst stefna Evrópuvefsins að veita hlutlægar og málefnalegar upplýsingar og lýsa málum frá sem flestum sjónarhornum. Ef lesendum sýnist að okkur beri af leið í þessu biðjum við þá að láta okkur umsvifalaust vita. Við munum þá bregðast við með leiðréttingum eða nánari upplýsingum eftir atvikum.

Og þegar fram í sækir vonum við að lesendur okkar dæmi vefinn umfram allt af verkum sínum.

Upphafleg spurning var sem hér segir:
Er ekki sjálfsagt, til að auka og tryggja gegnsæi og hugsanlega skapa traust, að ritstjóri og aðrir starfsmenn Evrópuvefjarins gefi upp hver afstaða þeirra er til aðildar að ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.6.2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson, Vilborg Ása Guðjónsdóttir og Þórhildur Hagalín. „Er ekki sjálfsagt að auka gegnsæi og hugsanlega traust með því að starfsmenn Evrópuvefsins gefi upp afstöðu sína til aðildar að ESB? “. Evrópuvefurinn 28.6.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60096. (Skoðað 26.4.2024).

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmssonprófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011Vilborg Ása Guðjónsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri á EvrópuvefÞórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Magnús Axelsson 4.7.2011

Eins og við var að búast, er svarið þokukennt og loðið. Það er líka ómaklegt að reyna að skreyta sig með annarra fjöðrum og bera þennan vef, eða tilgang hans við Vísindavefinn, sem er allt annars eðlis. Aðildin að ESB stefnir í að verða stærsta átakamálið í sögu fullveldis á Íslandi og þess vegna afar eðlilegt og sjálfsagt að starfsmenn Evrópuvefjarins gefi upp afstöðu sína fyrirfram til að forðast tortryggni. -- Það er undir ykkur komið ágætu ritstjórar og starfsmenn Evrópuvefjarins hvort ykkur verður trúað eða ekki. Þið veljið sjálf aðferðirnar sem þið beitið og þær munu bera vitni um trúverðugleikann eftir atvikum.

Þorsteinn Vilhjálmsson 11.7.2011

Við þökkum höfundi athugasemdina. – Vísunin í Vísindavefinn er byggð á því að ritstjóri Evrópuvefsins er sami maður og ritstýrði Vísindavefnum í 10 ár, 2000-2010. Þar er talsvert fjallað um viðkvæm og erfið mál svo sem trúmál, heimspeki, stjórnmálasögu og stjórnmálaheimspeki. Þetta hefur ekki valdið neinum tiltakanlegum vandræðum. – Við þökkum sérstaklega lokaorð athugasemdarinnar enda erum við einmitt að reyna að fylgja þeirri hugsun sem þar er lýst.