Spurning

Hver er afstaða ESB til framandi gæludýra eins og gíraffa, rassapa eða bavíana?

Spyrjandi

Sigurður Már. H Melsteð

Svar

Evrópusambandið hefur ekki tekið afstöðu til eignarhalds á framandi gæludýrum eins og gíraffa og bavíana og ekki eru til Evrópureglur um slíkt. Aðildarríkin hafa því ákvörðunarvald um hvaða reglur skuli gilda á þessu sviði og eru reglurnar mjög mismunandi eftir löndum. Mörgum þykir það miður og hafa kallað eftir samræmdri löggjöf.

***

Engin Evrópulöggjöf er til um eignarhald á framandi gæludýrum. Aðildarríkjunum er því í sjálfsvald sett hvaða reglur skuli gilda á því sviði. Margir harma þetta fyrirkomulag og hafa kallað eftir samræmdri löggjöf frá Evrópusambandinu um hvaða dýr megi eiga sem gæludýr.

Öll aðildarríkin hafa sett reglur um dýravernd af einhverju tagi. Mörg aðildarríkjanna hafa auk þess undirritað samning Evrópuráðsins um verndun gæludýra, en í samningnum er meðal annars reynt að koma í veg fyrir að villt dýr séu höfð sem gæludýr.


ESB hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort framandi dýr eins og bavíanar séu heppileg gæludýr.

Sautján aðildarríki hafa útbúið lista þar sem upp eru taldar þær dýrategundir sem óheimilt er að eiga sem gæludýr (e. negative list). Dýr sem ekki eru á listanum teljast því til leyfilegra gæludýra. Þessir listar eiga til að vera afar langir og þarfnast reglulegrar endurskoðunar í takt við nýja strauma á markaði með framandi gæludýr. Þá hafa tvö ríki, Holland og Belgía, útbúið lista yfir hið gagnstæða, það er að segja þær dýrategundir sem heimilt er að eiga sem gæludýr (e. positive list). Þau dýr sem ekki koma fram á listanum er óheimilt að eiga sem gæludýr. Hollenski listinn tók gildi í júní 2013. Belgía gaf sinn lista út árið 2001 og á honum eru 42 leyfilegar gæludýrategundir. Á listanum er meðal annars að finna kengúru, lamadýr, og asna. Ef einhver ætlar að fá sér gæludýr sem ekki er að finna á listanum þarf hann að sækja sérstaklega um það hjá viðkomandi ráðuneyti.

Þrátt fyrir að ekki sé til samræmd Evrópulöggjöf um eignarhald á framandi gæludýrum hafa málefni dýra þó átt erindi uppá pallborð Evrópusambandsins. Ýmsar reglugerðir og tilskipanir er að finna um gæludýr og villt dýr. Reglurnar snúa flestar að heilsufarsmálum dýranna og flutning þeirra milli landa. Einnig er að finna reglur um sölu og innflutning dýra til Evrópusambandsins frá löndum utan þess.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur11.9.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Lena Mjöll Markusdóttir. „Hver er afstaða ESB til framandi gæludýra eins og gíraffa, rassapa eða bavíana?“. Evrópuvefurinn 11.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63661. (Skoðað 20.5.2024).

Höfundur

Lena Mjöll Markusdóttirlaganemi og verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela