Spurning

Evrópski fjármálastöðugleikasjóðurinn

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Evrópski fjármálastöðugleikasjóðurinn (e. European financial stability facility, EFSF) var stofnaður á grundvelli ákvörðunar Efnahags- og fjármálaráðs Evrópusambandsins (e. Ecofin Council) þann 9. maí 2010. Sjóðnum var komið á fót tímabundið en í október 2010 var ákveðið að stofna varanlegan björgunarsjóð undir nafninu evrópska stöðugleikakerfið sem tók gildi í lok árs 2012. Fjármálastöðugleikajóðurinn var fromlega leystur af hólmi 1. júlí 2013 og getur hann ekki veitt öðrum ríkjum en þeim sem þyggja nú þegar aðstoð ný lán.

Markmið sjóðsins á meðan hann var starfræktur var að vinna að fjármálastöðugleika í Evrópusambandinu með því að veita ríkjum á evrusvæðinu fjárhagsaðstoð. Til að ná því markmiði:
  • Veitti sjóðurinn ríkjum í fjárhagserfiðleikum lán.
  • Greip inn í bæði frum- og eftirmarkað fyrir ríkisskuldabréf, en aðeins á grundvelli greiningar Seðlabanka Evrópu, þar sem sýnt var fram á sérstakar aðstæður á fjármálamörkuðum og hættu á fjármálalegum óstöðugleika.
  • Greip til aðgerða samkvæmt ákvæðum varúðaráætlunar.
  • Veitti ríkjum lán í því skyni að endurfjármagna fjármálafyrirtæki.

Sjóðurinn hefur gefið út skuldabréf og aðra fjármálagerninga á fjármálamörkuðum. Hann er í eigu evruríkjanna og baktryggður með yfirlýsingu um ábyrgð (e. guarantee commitments) þeirra að fjárhæð 780 milljarðar evra og hefur útlánagetu sem nemur allt að 440 milljörðum evra.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur13.9.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Evrópski fjármálastöðugleikasjóðurinn“. Evrópuvefurinn 13.9.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65874. (Skoðað 2.5.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela