Spurning

Af hverju er Ísland í NATO?

Spyrjandi

Árni Sigurjónsson, Hrafnhildur Ása Karlsdóttir, Silja Rós Svansdóttir

Svar

Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað árið 1949 og var Ísland eitt af stofnríkjum þess. Aðild Íslands að bandalaginu má einkum rekja til hernaðarlegs mikilvægis Íslands en landfræðileg lega þess var talin mundu henta vel til árása á Bandaríkin eða Sovétríkin ef til átaka kæmi milli þessara stórvelda. Þá var þátttaka Danmerkur og Noregs einnig lykilatriði í ákvörðun Íslands.

***

Hinn 4. apríl 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Norður-Atlantshafsbandalaginu. Þátttaka NATO-ríkjanna grundvallaðist á Norður-Atlantshafssáttmálanum sem kveður meðal annars á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll (5. grein sáttmálans). Markmið bandalagsins var að stemma stigu við þeirri hættu sem talin var stafa af Sovétríkjunum og ásælni þeirra til vesturs.

Ísland gerðist aðili að NATO til að bregðast við tiltekinni þróun á alþjóðavettvangi eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk. Við stríðslok þöndu Sovétríkin áhrifasvæði sitt út til Rúmeníu, Póllands, Búlgaríu, Austur-Þýskalands, Albaníu og Júgóslavíu. Sovésk stjórnvöld komu alræðisstjórnum að eigin fyrirmynd til valda í þessum ríkjum og í utanríkismálum fylgdu þau Sovétríkjunum að málum.

Ráðamenn á Norðurlöndum, þar á meðal Íslandi, voru mjög uggandi yfir þróun mála. Eftir valdatöku kommúnista í Tékkóslóvakíu snemma árs 1948, sem var framin að áeggjan Sovétmanna, hófust þreifingar milli Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar um stofnun norræns varnarbandalags. Þær umræður runnu endanlega út í sandinn á fyrstu mánuðum ársins 1949 vegna mismunandi afstöðu Norðmanna og Svía til samstarfs við Bandaríkin; Norðmenn töldu að varnarsamstarf við Bandaríkin væri forsenda trúverðugrar fælingar gagnvart Sovétríkjunum, en Svíar voru mótfallnir því og vildu halda sig við hlutleysi í vopnuðum átökum, sem sænska ríkið hafði fylgt frá því snemma á 19. öld.


Manlio Brosio þáverandi framkvæmdastjóri NATO, Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra Íslands og William Rogers þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna á tuttugu ára afmæli Norður-Atlantshafsbandalagsins 1. apríl 1969.

Veturinn 1948-49 fóru fram óformlegar viðræður á milli þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Richards P. Butrick, og þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Bjarna Benediktssonar, um stofnun vestræns hernaðarbandalags og mögulega þátttöku Íslands í slíku bandalagi. Í janúar 1949 gerði Bjarni Benediktsson sér sérstaka ferð til Kaupmannahafnar og Ósló til að kanna hug danskra og norskra ráðamanna til slíks bandalags. Næsta víst er að Ísland hefði ekki tekið þátt í stofnun NATO nema Danmörk og Noregur gerðu það einnig. Tveim mánuðum síðar héldu fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar, þeir Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson og Eysteinn Jónsson, utan til Washington til að grennslast fyrir um eðli bandalagsins og þær skuldbindingar sem þátttaka Íslands mundi fela í sér.

Samkvæmt bandarískum ráðamönnum fólst hernaðarmikilvægi Íslands í landfræðilegri legu landsins, sem hentaði vel til árása á Bandaríkin eða Sovétríkin. Ef kæmi til átaka á milli þessara ríkja mundi hvort þeirra um sig reyna að koma í veg fyrir að hinn aðilinn gæti nýtt sér Ísland í hernaðarlegum tilgangi. Einnig áréttuðu þeir að bandarísk stjórnvöld mundu aldrei líða sovésk yfirráð á Íslandi óháð því hvort Ísland stæði innan eða utan hins fyrirhugaða varnarbandalags. Bandarískar hernaðaraðgerðir til að hrekja Sovétríkin frá Íslandi mundu að öllum líkindum leiða til gífurlegs mannfalls þar sem stærstur hluti íbúa landsins byggi í nálægð við helstu hafnir og flugvelli landsins.


Þátttaka Íslands í NATO-samstarfinu hefur löngum verið umdeild.

Afstaða íslensku fulltrúanna einkenndist af varkárni. Bjarni Benediktsson benti á að lega Íslands væri svo mikilvæg fyrir bandaríska og breska hagsmuni að ef ráðist yrði á landið mundu ríkin koma til hjálpar hvort sem Ísland gerðist aðili að bandalagi eða ekki. Emil Jónsson velti upp þeim möguleika að Ísland stæði fyrir utan bandalagið en mundi lýsa því yfir að Bandaríkin og Bretland hefðu aðgang að aðstöðu á Íslandi á stríðstímum. Fyrir vikið tækju Bandaríkin og Bretland að sér að tryggja öryggi Íslands. Viðbrögð bandarískra ráðamanna við þessum hugmyndum voru fremur dræm. Af þeirra hálfu væri enginn vilji til að stofna til sérstaks varnarbandalags við Ísland og Bretland. Auk þess töldu þeir að íslensk stjórnvöld væru að senda ákveðin skilaboð til Sovétríkjanna með því að standa utan fyrirhugaðs bandalags og Sovétmenn gætu nýtt sér það. Öll hjálp frá Vesturveldunum mundi því berast eftir að Ísland hefði orðið fyrir árás eða verið hernumið. Bandarískir ráðamenn áréttuðu að þeir hefðu skilning á því að Ísland væri herlaust land og að íslensk stjórnvöld hefðu engan áhuga á erlendum herafla á Íslandi. Aftur á móti mundi þátttaka Íslands fela í sér að íslensk stjórnvöld þyrftu að leggja bandalaginu til aðstöðu sem yrði í formi afnotaréttar bandalagsríkja af Keflavíkurflugvelli á hættutímum, enda gæti bandalagið varið sjó- og flugleiðir til og frá landinu.

Hinn 30. mars 1949 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að NATO með 37 atkvæðum gegn 13. Allir þingmenn Sósíalistaflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni auk Gylfa Þ. Gíslasonar og Hannibals Valdimarssonar, þingmanna Alþýðuflokksins, og Páls Zóphoníassonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Hermann Jónasson og Skúli Guðmundsson, báðir úr Framsóknarflokki, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Heimildir:
  • Swedish neutrality - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 30.10.2013).
  • Stefán Jóhann Stefánsson. (1966). Minningar Stefáns Jóhanns Stefánssonar (1. bindi). Reykjavík: Setberg.
  • Pétur J. Thorsteinsson. (1992). Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál: Sögulegt yfirlit (Bindi. 1). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Einkaskjöl Bjarna Benediktssonar, Borgarskjalasafn Reykjavíkur:

  • Samtal við Sendiherra Bandaríkjanna Richard P. Butrick Desember 1948. Einkaskjalasafn nr. 360. Utanríkismál. Minnisblöð og minnispunktar Bjarna Benediktssonar 1947-1960: Bréfa- og málasafn 1948. Askja 2-10, örk 4.
  • Samtal við Utanríkisráðherra Danmerkur Gustav Rasmussen 27. Janúar 1949. Einkaskjalasafn nr. 360. Utanríkismál. Minnisblöð og minnispunktar Bjarna Benediktssonar 1947-1960: Bréfa- og málasafn 1948. Askja 2-10, örk 5
  • Samtal við Utanríkisráðherra Noregs Halvard Lange 28. Janúar 1949. Einkaskjalasafn nr. 360. Utanríkismál. Minnisblöð og minnispunktar Bjarna Benediktssonar 1947-1960: Bréfa- og málasafn 1948. Askja 2-10, örk 5.
  • Fundir íslensku sendinefndarinnar. Einkaskjalasafn nr. 360. Stjórnmálamaðurinn. Askja 2-10, örk 5.

Myndir:

Upprunaleg spurning Árna:

Hvers vegna eru Íslendingar í NATO? Hvað er það sem við fáum út úr því?

Upprunaleg spurning Hrafnhildar:

Hverjar voru ástæður inngöngu Íslands í NATO?

Upprunaleg spurning Silju:

Hvað geturðu sagt mér um inngöngu Íslendinga í NATO 30. mars 1949?

Við þetta svar er engin athugasemd Fela