Spurning

Hvað mundi breytast við aðild að Evrópusambandinu varðandi póstverslun?

Spyrjandi

G. Pétur Matthíasson

Svar

Helstu breytingarnar sem aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér varðandi póstverslun lúta að tollum annars vegar og fyrirkomulagi virðisaukaskattsinnheimtu hins vegar. – Núverandi umhverfi póstverslunar á Íslandi býður upp á ýmsa möguleika til einföldunar óháð aðild að ESB og hefur Alþingi nýverið ákveðið að skipaður skuli starfshópur um það hvernig megi efla og auðvelda póstverslun á Íslandi.

***

Við aðild Íslands að Evrópusambandinu yrðu töluverðar breytingar á umhverfi póstverslunar frá því sem nú er. Önnur helsta breytingin varðar tolla en með aðild yrði Ísland hluti af tollabandalagi Evrópusambandsins. Tollabandalagið felur í sér fullkomið tollfrelsi í viðskiptum milli aðildarríkjanna hvort sem verslað er með vörur sem eru upprunnar innan sambandsins eða utan þess, svo framarlega sem þær hafi verið tollafgreiddar inn í sambandið í einu aðildarríki og séu þar með komnar í svokallað frjálst flæði.

Íslendingar njóta mikilla tollfríðinda í viðskiptum við aðildarríki ESB nú þegar á grundvelli EES-samningsins en þau ná þó aðeins til vara sem eru upprunnar í aðildarríkum Evrópusambandsins. Aðild Íslands að ESB hefði því annars vegar í för með sér afnám þeirra tolla sem ekki voru afnumdir með EES-samningum, það eru tollar af tilteknum landbúnaðarvörum, og hins vegar afnám tolla af vörum upprunnum í þriðju ríkjum sem hafa verið tollafgreiddar inn í sambandið. Þetta yrði raunin hvort sem vörurnar eru pantaðar á Netinu, í gegnum síma eða einstaklingar ferðast með þær sjálfir yfir landamæri.

Á vörur frá ríkjum utan ESB yrðu á hinn bóginn lagðir tollar í samræmi við sameiginlega tollskrá Evrópusambandsins, sem mundi leysa íslensku tollskrána af hólmi. Tollar samkvæmt sameiginlegu tollskránni eru ákvarðaðir af ráðinu, með auknum meirihluta, og renna að langmestu leyti (75%) í sameiginlega sjóði Evrópusambandsins. Nánar má lesa um þetta í svari við spurningunni Er ekki rétt skilið að tollar á vörum milli ESB-ríkja falla niður við inngöngu í ESB, til dæmis þegar vara er pöntuð á Netinu?

Hin helsta breytingin sem yrði á umhverfi póstverslunar á Íslandi við aðild að ESB varðar fyrirkomulag virðisaukaskattsinnheimtu. Samkvæmt núgildandi íslenskum reglum greiða íslenskir neytendur, sem panta vöru frá netverslun í aðildarríki ESB, engan virðisaukaskatt við kaup vörunnar. Þegar varan er komin til landsins þurfa þeir hins vegar að greiða íslenskt virðisaukaskattshlutfall (ýmist 25,5% eða 7%) af vörunni og sendingarkostnaði til þess að fá vöruna afhenta hjá þjónustuaðila, oftast Íslandspósti, sem að auki innheimtir umsýsluþóknun (tollmeðferðargjald) fyrir afgreiðsluna.


Einstaklingar versla í auknum mæli í gegnum Netið.

Um greiðslu virðisaukaskatts af vörum í Evrópusambandinu gildir almennt svonefnd meginregla um upprunaland/söluland (e. country of origin principle). Það þýðir að einstaklingar greiða virðisaukaskatt í því aðildarríki sem þeir kaupa vöruna og þurfa ekki að greiða viðbótarvirðisaukaskatt þegar þeir ferðast með vöruna í heimaland sitt. Um fjarsölu, það er þegar söluaðili er í öðru landi en kaupandi og varan er send kaupandanum, gildir ýmist reglan um upprunaland eða ákvörðunarland/heimaland (e. country of destination principle). Engu máli skiptir hvort salan fer fram í gegnum síma, pöntunarlista eða Netið.

Almenna reglan um fjarsölu vara er sú að virðisaukaskattshlutfall upprunalandsins, það er þess aðildarríkis þar sem söluaðilinn er staðsettur, er lagt á vöruverðið. Ef heildarsala söluaðilans fer hins vegar upp yfir svonefndan þröskuld (35.000 eða 100.000 evrur eftir því um hvaða aðildarríki er að ræða) í tilteknu aðildarríki, eða ef söluaðili kýs svo, þá þarf söluaðili að skrá sig í virðisaukaskattskerfi viðkomandi aðildarríkis, innheimta virðisaukaskattshlutfall þess ríkis (ákvörðunarlandsins) og standa skil á skattinum í viðkomandi ríkissjóð. Þetta þýðir að fjarsöluaðilar þurfa að leggja á virðisaukaskattshlutfall heimalands kaupandans þegar heildarsala til allra viðskiptavina þess ríkis fer upp yfir þröskuld þess.

Með þessu fyrirkomulagi er reynt að tryggja að stærstur hluti virðisaukaskattsins, sem er neysluskattur, komi í hlut þess ríkis þar sem vörunnar er neytt; rétt eins og hún hefði verið keypt í næstu búð. Jafnframt er komið í veg fyrir að söluaðilar, til að mynda stórar netverslanir eins og Amazon, sjái sér hag í því að skrá fyrirtæki sitt í því aðildarríki þar sem hlutfall virðisaukaskattsins er lægst. Þar eð þeir þurfa allir að leggja virðisaukaskattshlutfall heimalands kaupendanna á vöruverð sín, þegar heildarsala er umfram þröskuld, er samkeppnisstaða þeirra jöfn að þessu leyti óháð því í hvaða aðildarríki þeir starfa. Það sem meiru ræður um slíkar ákvarðanir eru meðal annars beinir skattar á fyrirtæki og kostnaður við starfsmannahald.

Neytendur í aðildarríkjum ESB, sem versla í póstverslunum innan sambandsins, greiða virðisaukaskattinn þar af leiðandi sem hluta af vöruverði, hvort sem um er að ræða hlutfall uppruna- eða ákvörðunarlands, og þurfa því ekki að standa skil á skattinum sjálfir við móttöku vörunnar né greiða umsýslugjald fyrir virðisaukaskattsinnheimtuna. Af vörum sem keyptar eru í póstverslun utan Evrópusambandsins þurfa ESB-borgarar hins vegar að greiða virðisaukaskatt við innflutning.

Við aðild Íslands að Evrópusambandinu gætu einstaklingar því keypt til einkanota flestallar vörur frá öðrum aðildarríkjum, hvort sem þær eru framleiddar innan ESB eða ekki, án þess að greiða af þeim tolla, vörugjöld (að undandskildu áfengi, tóbaki og ökutækjum), tollmeðferðargjöld né standa sérstaklega skil á virðisaukaskatti ákvörðunarlands. Þess í stað yrði virðisaukaskattur (ýmist uppruna- eða ákvörðunarlands) greiddur sem hluti af kaupverði og að sjálfsögðu sendingarkostnaður.

Aðild að Evrópusambandinu er hins vegar ekki nauðsynlegt skilyrði einfaldari virðisaukaskattsinnheimtu. Þetta sýna breytingar á íslenskum lögum um virðisaukaskatt sem gerðar voru árið 2011 og kveða á um að erlendir aðilar sem selja rafbækur, tónlist og tölvuleiki á Netinu þurfa að innheimta og skila virðisaukaskatti til ríkissjóðs Íslands. Þetta þýðir að þegar erlend netverslun selur íslenskum neytendum rafrænar útgáfur, til dæmis tónlist eða bækur, á hún að leggja virðisaukaskatt á söluna og skila til íslenskra yfirvalda. Þetta á við um fyrirtæki sem selja fyrir meira en 1 milljón króna árlega til íslenskra neytenda.

Á Alþingi var nýverið samþykkt þingsályktun um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun. Ályktað var að forsætisráðherra skuli setja á fót starfshóp sem athuga skal þróun og regluverk í póstverslun hér og erlendis og gera tillögur um lagabreytingar og aðrar ráðstafanir til að skapa póstverslun viðeigandi samkeppnisstöðu til hagsbóta fyrir neytendur og atvinnufyrirtæki. Á meðal þess sem hópurinn á að kanna sérstaklega er hvort útvíkka skuli ofannefnda reglu um innheimtu og skil erlendra söluaðila á virðisaukaskatti af rafrænum bókum og tónlist til hefðbundinna bóka, geisladiska og annarra vara. Hópurinn á að skila skýrslu um störf sín og tillögur um úrbætur fyrir 1. september 2013.

Heimildir og mynd:

Upprunaleg spurning:

Hvað mun breytast við aðild að Evrópusambandinu varðandi póstverslun? Til dæmis ef keypt er frá Amazon eða eBay?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela