Spurning

Í hvað er útgjöldum ESB varið?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Stærstu útgjaldaliðir Evrópusambandsins eru landbúnaðarstefnan og byggðastefnan. Því næst kemur samstarf aðildarríkjanna á sviði rannsókna, menntunar, nýsköpunar, samgangna og orkumála, verkefni á alþjóðavettvangi, rekstur stofnana ESB, málefni innflytjenda og flóttamanna, löggæsla, ytri landamæraeftirlit og fleira því tengt og loks málaflokkurinn borgararéttindi.

***

Evrópusambandið gerir fjárhagsramma til sjö ára í senn. Yfirstandandi fjárhagstímabil gildir frá 2007 til 2013 og eru heildarútgjöld á tímabilinu áætluð um 975 milljarðar evra eða rúmar 154 billjónir íslenskra króna á genginu í nóvember 2011, en ein billjón er þúsund milljarðar eða 1.000.000.000.000 krónur. Skiptingu útgjalda eftir málaflokkum má sjá á eftirfarandi mynd:


Smellið á myndina til að stækka hana.

Byggðastefnan er stærsti einstaki liðurinn á fjárlögum Evrópusambandsins en til hennar er varið 35,7% af heildarfjárlögum á tímabilinu 2007-2013 (tæpum 350 milljörðum evra). Upphæðin skiptist á milli svonefndra uppbyggingarsjóða: Byggðaþróunarsjóðs Evrópu, félagsmálasjóðs Evrópu og samheldnisjóðsins.

Markmið byggðastefnunnar er að draga úr hinum mikla efnahagslega og félagslega mun á milli svæða sambandsins með því að bæta hag þeirra svæða sem eru verst sett. Byggðaþróunarsjóður styrkir uppbyggingu innviða, nýsköpun og fjárfestingar. Félagsmálasjóðurinn styður við atvinnuuppbyggingu með áherslu á endurmenntun og atvinnuþátttöku þeirra sem standa höllum. Samheldnisjóðurinn fjármagnar uppbyggingu evrópskra samgöngukerfa, ásamt öðrum samgöngu- og umhverfisverkefnum. Langstærstur hluti framlaganna úr uppbyggingarsjóðunum rennur til fátækustu svæða sambandsins. Sjá nánar í svari við spurningunni Hver er byggðastefna Evrópusambandsins?

9,3% (um 90 milljörðum evra) af útgjöldum Evrópusambandsins á tímabilinu 2007-2013 er varið til stuðnings samvinnu aðildarríkjanna í rannsóknum og þróun, menntamálum, samgöngu- og orkumálum, nýsköpun, frumkvöðlastarfi og atvinnumálum. Stærstu einstöku kostnaðarþættirnir eru Sjöunda rammaáætlun ESB um rannsóknir og þróun, Menntaáætlun ESB, Samevrópsk flutninganet samgangna, orku og fjarskipta og verkefni á sviði orkumála. Þá tilheyrir gervihnattarleiðsögukerfið Galileo einnig þessum málaflokki, umhverfisáætlunin Marco Polo, Samkeppnis- og nýsköpunaráætlun ESB sem og sérstakar samstarfsáætlanir tileinkaðar minni notkun kjarnorku, afleiðingum alþjóðavæðingar, samstarfi tollayfirvalda (Customs 2013) og samstarfi skattayfirvalda aðildarríkjanna gegn fjársvikum (Fiscalis 2013).

Til landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins er varið 42,3% af heildarfjárlögum á tímabilinu 2007-2013 (um 413 milljörðum evra). Þar af er stærstum hluta (33,8% af heildarútgjöldum) veitt í beinar greiðslur til bænda sem og í aðra markaðsíhlutun vegna sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar. 8,5% af heildarútgjöldum á tímabilinu er hins vegar varið til stuðnings við dreifbýlisþróun í landbúnaði. Undir þann lið fellur meðal annars stefna Evrópusambandsins í umhverfismálum, svo sem umhverfissjóðurinn LIFE+, og sameiginlega sjávarútvegsstefnan.


Stærstum hluta útgjalda ESB hefur í gegnum tíðina verið varið til landbúnaðarmála.

Til verkefna Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi (EU as a global player) er varið um 5,7% af fjárlögum ESB á tímabilinu 2007-2013 (um 55 milljörðum evra). Mestu fé er varið í þróunarsamstarf, nágrannastefnu ESB, stuðning við umsóknarríki ESB (IPA-styrkir) og mannúðaraðstoð. Aðrir kostnaðarliðir eru sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnan, stuðningur við lýðræði og mannréttindi í þriðjuríkjum, verkefni sem miða að stöðugleika, tryggingar fyrir lánum, samstarf sem snýr að kjarnorkuöryggi og loks samstarf á milli ESB, Ástralíu, Nýja-Sjálands, Kóreu og Japans á sviði æðri menntunar.

Um 5,7% af fjárlögum sambandsins er sömuleiðis varið til stjórnsýslu sambandsins. Hér er átt við laun starfsmanna, rekstur bygginga, uppbyggingu innviða, tækni- og öryggismál og fleira þessu tengt. Stofnanirnar sem um ræðir eru Evrópuþingið, ráðið, framkvæmdastjórnin, dómstóll Evrópusambandsins, endurskoðunarrétturinn, efnahags- og félagsmálanefnd ESB, svæðanefnd ESB, umboðsmaður ESB og Evrópska persónuverndarstofnunin.

Um 0,8 prósentum af fjárlögum ESB á yfirstandandi fjárlagatímabili (7,5 milljörðum evra) er varið til frelsis, öryggis og réttlætis. Undir þennan lið falla meðal annars málefni flóttamanna og hælisleitenda, ytra landamæraeftirlit, áhættustjórnun, samstarf löggæsluaðila og baráttan gegn hryðjuverkum, ofbeldi, skipulögðum glæpum, eiturlyfjum og ólöglegum innflytjendum. Þá tilheyra málaflokknum einnig verkefni tengd forvarnarstarfi, þjálfun löglegra innflytjenda, grundvallarréttindum, borgararéttindum og samstarfi dómsvalda á sviði einkamála- og refsiréttar.

Loks fara um 0,5% útgjalda ESB á árunum 2007-2013 í málaflokkinn borgararéttindi (4,7 milljarðar evra). Þar er meðal annars um að ræða samstarfsáætlanir á borð við ungmennaáætlun Evrópusambandsins (Evrópu unga fólksins), Kvikmynda-, sjónvarps- og margmiðlunaráætlunina (Media 2007), Menningaráætlunina (Culture 2007), evrópsku borgaraáætlunina (Europe for Citizens) sem og áætlanir tengdar lýðheilsu og neytendavernd. Þá er fé einnig varið til eflingar sjálfboðastarfs og í sjóði sem tengjast viðbrögðum við hættuástandi og náttúruhamförum.

Þetta svar var uppfært í júlí 2012.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela